Harkið úti tekið meira á andlega

Kristófer Acox ræddi við mbl.is eftir æfingu landsliðsins á Hlíðarenda …
Kristófer Acox ræddi við mbl.is eftir æfingu landsliðsins á Hlíðarenda í gær. mbl.is/Eggert

„Ég er alveg leikhæfur en á kannski ekki von á að geta spilað eins mikið og mig langar. Ég reyni að vera eins tilbúinn og ég get,“ segir Kristófer Acox fyrir leik Íslands við Belgíu í Laugardalshöll annað kvöld, í forkeppni EM í körfubolta.

Kristófer hefur glímt talsvert við meiðsli í haust og segist þess vegna ekki vera í sínu besta ástandi:

„Ég er búinn að snúa mig tvisvar frekar illa síðasta mánuðinn, svo ég hef lítið getað æft og spilað. Ég er búinn að ná nokkrum æfingum með KR eftir að ég kom heim, og tók svo fyrsta leikinn minn í síðustu viku en ég er ekki í neinu leikformi þannig séð. Það mun taka tíma að vinna það aftur upp. Ökklinn sjálfur er góður en ég er að vinna í forminu núna. Þetta hefur þó kannski tekið meira andlega á en líkamlega, allt þetta hark úti, en mér finnst ég alveg fínn og þetta kemur með fleiri æfingum og leikjum,“ segir Kristófer við mbl.is, eftir æfingu landsliðsins í gær.

Kristófer er fluttur aftur til Íslands og snúinn aftur í raðir KR eftir skamma dvöl hjá Denain í Frakklandi. Honum líkaði vistin í bænum ekki nægilega vel, eins og hann greindi frá í viðtali við mbl.is, en eftir að viðtalið birtist var um tíma útlit fyrir að hann fengi ekki samningi sínum við Denain rift. Það tókst þó í tæka tíð áður en félagaskiptaglugginn lokaðist á Íslandi.

„Það fer allt svolítið niður á við eftir að ég bið um að fá að losna, og svo meiðist ég í kjölfarið. Þeir [forráðamenn Denain] tóku svo ekki vel í þessa frétt, voru svolítið erfiðir, en þeir hleyptu mér heim á endanum og ég er þeim afar þakklátur fyrir það. Ég átti ekki von á því að þetta yrði svona,“ segir Kristófer. Hann stefnir hins vegar á að reyna aftur fyrir sér erlendis:

„Það er planið að klára tímabilið á Íslandi og stefna svo kannski aftur út eftir það, en ég passa mig þá að skoða aðeins betur hvert ég er að fara og skrifa ekki bara undir hvað sem er. Umhverfið og allt sem fylgir þessu skiptir máli. En það er alltaf stefnan að fara aftur út.“

Gefur okkur aukakraft að spila heima

Ísland tapaði naumlega fyrir Portúgal á útivelli í fyrsta leik sínum í forkeppninni, en Belgía vann Portúgal með eins stigs mun á heimavelli. Riðlakeppninni lýkur í febrúar og kemst efsta liðið beint áfram í undankeppni EM. Hin tvö liðin fara í 3. umferð forkeppninnar og geta komist aðra leið í undankeppnina.

„Núna erum við að spila heima og það gefur okkur alltaf aukakraft. Síðast þegar við spiluðum heima þá tókum við bæði Finna og Tékka. Það er vissulega mikill missir að Martin [Hermannsyni, sem er meiddur] en að sama skapi vorum við ekki með Hauk [Helga Pálsson] síðast. Það skiptir mjög miklu máli að hafa hann, sem og Jón Arnór [Stefánsson] í svona toppformi. Við erum kannski aðeins breyttur hópur en með hörkulið. Belgar eru líka með mjög sterkan hóp, en við vitum að við unnum þá í Höllinni fyrir tveimur árum. Við vitum líka að ef við vinnum þá erum við komnir í kjörstöðu og það er ekkert annað sem kemur til greina en að taka tvö stig,“ segir Kristófer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert