Mjög góð byrjun á nýju ári

Orla O’Reilly átti mjög góðan leik í dag.
Orla O’Reilly átti mjög góðan leik í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var mjög góð byrjun á nýju ári og síðari hluta tímabilsins," sagði KR-ingurinn Orla O'Reilly eftir sannfærandi 93:71-sigur á KR í Dominos-deild kvenna í körfubolta í dag. O'Reilly skoraði 32 stig og var stigahæst allra í leiknum. Hún viðurkennir að hún átti von á jafnari leik enda liðin með jafn mörg stig fyrir daginn. 

„Við áttum von á erfiðum leik og leikurinn fór ekki alveg eins og við áttum von á. Þrír leikhlutar voru jafnir og erfiðir, en við spiluðum mjög vel heilt yfir. Allir lögðu sitt að mörkum, leikskipulagið heppnaðist og það ber að hrósa Benna þjálfara."

Hún segir að góður varnarleikur og auðveldar körfur í kjölfarið hafi lagt grunninn að sigrinum. 

„Það var að ganga vel að snúa vörn í sókn. Við vorum snöggar yfir völlinn þegar við unnum boltann í vörninni. Við lögðum upp með að hlaupa eins mikið og við gátum því þeirra lið er hávaxnara."

Þetta lítur vel út núna

O'Reilly segir sigurinn ekki endilega vera yfirlýsingu, heldur einfaldlega einn sigur á langri leiktíð. KR er eitt á toppnum núna, leikmennirnir fagna líðið. 

„Ég myndi ekki segja það. Þetta er bara annar sigur á leiktíðinni. Allir leikir hjá okkur eru erfiðir og við höfum ekki verið að vinna leiki með 20 stigum eins og í dag. Við erum að vinna mikið af leikjum, en við þurfum að hafa fyrir því.

Þetta lítur vel út núna. Benni minnir okkur reglulega á að við verðum að halda áfram að vinna. Við fögnum ekki neinu núna, þegar við erum ekki einu sinni komnar í úrslitakeppnina. Núna bíðum við bara eftir erfiðum leik við Hauka á miðvikudag."

KR kom upp úr 1. deildinni á síðustu leiktíð og hefur liðið komið verulega á óvart sem nýliði í deild þeirra bestu. Gengið hefur hins vegar ekki komið O'Reilly á óvart.  

„Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast. Ég vissi að mannskapurinn væri nógu góður í þessa deild. Ég átti von á að við yrðum samkeppnishæfar, því við erum með mjög góðar íslenskar stelpur í liðinu og svo mjög sterka útlendinga í bland. Ég vissi að við myndum ekki tapa mikið af leikjum eins og einhverjir héldu, en það er búið að ganga mjög vel," sagði sú írska. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert