Valur yfirbugaði Snæfell í fjórða leikhluta

Kristen McCarthy sækir að körfu Vals í Laugardalshöllinni í kvöld.
Kristen McCarthy sækir að körfu Vals í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/Eggert

Afleitur fjórði leikhluti reyndist Snæfelli dýr þegar liðið mætti Val í undanúrslitum Geysisbikars kvenna í körfuknattleik í Laugardalshöllinni í kvöld en leiknum lauk með ellefu stiga sigri Vals, 83:72.

Snæfell byrjaði leikinn mun betur og leiddi með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta, 24:14. Snæfell náði mest elleftu stiga forskoti í öðrum leikhluta en alltaf kom Valsliðið til baka og í hálfleik var staðan 45:42, Val í vil. Snæfellsliðið mætti miklu ákveðnara til leiks í seinni hálfleikinn og þeim tókst að vinna upp mun Valsliðsins og Snæfell leiddi með tveimur stigum fyrir fjórða leikhluta. Þar reyndist Valsliðið mun sterkara og svo fór að Valur fagnaði öruggum sigri í leikslok.

Valsstúlkur voru langt frá því að spila sinn besta körfubolta, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeim tókst hins vegar alltaf að hanga inni í leiknum, þökk sé Darra Frey Atlasyni, þjálfara Vals, sem tók leikhlé á hárréttum tímapunktum í fyrri hálfleik. Helena Sverrisdóttir lét lítið að sér kveða í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik steig hún svo sannarleg upp en hún skoraði 33 stig í leiknum, tók tólf fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Snæfellsstúlkur spiluðu frábæran körfubolta í þrjá leikhluta en það er ekki nóg í bikarúrslitum og gegn jafn sterku liði og Val. Snæfell átti afleitan fjórða leikhluta þar sem liðinu tókst einungis að skora 12 stig gegn 25 stigum Vals. Varnarleikur liðsins var gríðarlega öflugur framan af og að sama skapi var Snæfell með leikinn algjörlega í höndum sér fyrir fjórða leikhlutann. Svo virðist sem ákveðin þreyta hafi verið komin í leikmenn liðsins sem lögðu mikla orku í leikinn og því fór sem fór.

Valur mætir því Stjörnunni í úrslitaleik um Geysisbikarinn á laugardaginn næsta en hvorugt lið hefur unnið bikarkeppnina áður, en þrefaldir bikarmeistarar Snæfells eru úr leik.

Valur - Snæfell 83:72

Laugardalshöll, Bikarkeppni kvenna, 13. febrúar 2019.

Gangur leiksins: 2:3, 8:11, 12:15, 14:24, 20:26, 26:31, 33:42, 45:42, 47:49, 53:54, 58:58, 58:60, 66:60, 70:62, 78:66, 83:72.

Valur: Helena Sverrisdóttir 33/12 fráköst/7 stoðsendingar, Heather Butler 27, Hallveig Jónsdóttir 7, Guðbjörg Sverrisdóttir 7, Ásta Júlía Grímsdóttir 4, Simona Podesvova 3/14 fráköst/6 stoðsendingar, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 2.

Fráköst: 29 í vörn, 3 í sókn.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 24/9 fráköst/7 stoðsendingar/10 stolnir, Gunnhildur Gunnarsdóttir 15, Berglind Gunnarsdóttir 11, Katarina Matijevic 8/7 fráköst, Angelika Kowalska 8/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, Björg Guðrún Einarsdóttir 3.

Fráköst: 16 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Leifur S. Garðarsson, Davíð Tómas Tómasson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 300

Valur 83:72 Snæfell opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert