Stjarnan í úrslit bikarkeppninnar

Stjarnan á möguleika á því að vinna sinn fjórða bikarmeistaratitil í körfuknattleik karla á áratug á laugardaginn. Stjarnan sigraði ÍR 87:73 í fyrri undanúrslitaleik Geysis-bikarkeppninnar í Laugardalshöll í dag. 

Síðar í kvöld, eða kl. 20.15, mætast KR og Njarðvík í seinni undanúrslitaleiknum.

Leikurinn var mjög fjörugur og skemmtilegur en Stjarnan náði að slíta sig nógu mikið frá ÍR á síðustu fjórum mínútum leiksins. Að loknum fyrir hálfleik var ÍR stigi yfir 42:41. 

Stjarnan byrjaði leikinn með miklum látum og komst í 20:8. ÍR-ingar létu það ekki slá sig út af laginu og komust yfir í fyrri hálfleik. Náðu þeir sjö stiga forskoti 40:33. Reyndi þá á Garðbæinga sem hafa verið sjóðandi heitir síðustu vikurnar. Þegar neyðin er stærst er Hlynur Bæringsson næst og hann skoraði fimm stig í röð. 

Hlynur kom oft með mikilvægar körfur í leiknum þegar manni fannst eins og Stjarnan væri að lenda í basli í sókninni. Alls skoraði landsliðsfyrirliðinn 22 stig og reyndist dýrmætur. Ægir Þór Steinarsson var einnig drjúgur með 19 stig. Garðbæingar voru klókir þegar þeir tryggðu sér krafta þessara tveggja leikmanna þegar þeir sneru heim úr atvinnumennsku og það skilar sér í leikjum sem þessum. 

Síðari hálfleikur var spennandi lengi vel en segja má að Stjarnan hafi slitið sig frá á síðustu fimm mínútunum eða svo. Breiddin í leikmannahópi er meiri og það hafði sitt að segja þegar upp var staðið. 

Kevin Capers á stórleik hjá ÍR og skoraði 33 stig. Veitti kannski ekki af þar sem Gerald Robinson skoraði ekki eitt einasta stig í leiknum en hann er með 19 stig að meðaltali í deildinni. Sigurður Þorsteinsson lék mjög vel í fyrri hálfleik og fann þá einfaldar og árangursíkar leiðir að körfunni en Garðbæingum gekk betur að loka á hann í þeim síðari. 

Lið Stjörnunnar: Hlynur Bæringsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Ægir Þór Steinarsson, Collin Pryor, Philip Kramer, Magnús Bjarki Guðmundsson, Ágúst Angantýsson, Antti Kanervo, Dúi Þór Jónsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Arnþór Freyr Guðmundsson, Brandon Russell. 

Lið ÍR: Ísak Máni Wium, Gerald Robinson, Kevin Capers, Matthías Orri Sigurðarson, Trausti Eiriíksson, Hákon Hjálmarssonar, Benóný Svanur Sigurðsson, Ólafur Björn Gunnlaugsson, Skúli Kristjánsson, Sæþór Elmar Kristjánsson, Sigurður Þorsteinsson, Sigurkarl Jóhannesson. 

Stjarnan 87:73 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert