Aftur missa ÍR-ingar lykilmann í bann

Kevin Capers verður ekki með ÍR í öðrum leik liðsins gegn Njarðvík í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfuknattleik sem leikinn verður í Breiðholtinu á morgun. Hann var í dag úrskurðaður í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambands Íslands.

Capers var sendur í sturtu í fyrsta leik liðanna í Njarðvík fyrr í vikunni fyrir að slá hendi í Njarðvíkinginn Jón Arnór Sverrisson og verða ÍR-ingar því án krafta hans annað kvöld en Njarðvík vann fyrsta leikinn og hefur því forystu í einvíginu. Capers hefur verið stigahæsti leikmaður ÍR í vetur og munar því um krafta hans.

ÍR-ingar misstu einnig lykilmann í leikbann í 8-liða úrslitunum í fyrra er Ryan Taylor fékk þriggja leikja bann fyrir að slá Hlyn Bæringsson, leikmann Stjörnunnar í miklu baráttu einvígi. ÍR-ingar höfðu þó að lokum betur í því einvígi en eiga á brattann að sækja gegn Njarðvíkingum í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert