Hannes í framboði í München

Hannes S. Jónsson ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á …
Hannes S. Jónsson ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á leik KR og ÍR á dögunum. mbl.is/Hari

Hannes Sigurbjörn Jónsson gefur kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn Körfuknattleikssambands Evrópu, FIBA Europe. Örlög hans í kjörinu skýrast á morgun. Fyrrverandi NBA-leikmaður styður ekki landa sinn í forsetakjörinu. 

Kosið er á fjögurra ára fresti í helstu embætti hjá sambandinu og verður það gert að þessu sinni á þinginu í München. 

Hannes fær heilmikla samkeppni því 38 einstaklingar bjóða sig fram en 21 sæti er í boði. Hver aðildarþjóð FIBA Europe má tilnefna einn einstakling í stjórnina. Kosið verður á morgun, laugardag.

Hannes og Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir varaformaður KKÍ eru fulltrúar Íslands á þinginu samkvæmt því sem fram kemur á vef KKÍ. 

Þrír bjóða sig fram til forseta en það eru sitjandi forseti, Turgay Demirel frá Tyrklandi, Cyriel Coomans fra Belgíu, sem er einn af þrem varaforsetum sambandsins, og Dejan Tomasevic frá Serbíu sem er framkvæmdarstjóri körfuknattleikssambands Serbíu. Þess má geta að Ólafur Rafnsson var forseti FIBA Europe þegar hann féll frá árið 2013. 

Nokkuð skondin staða er komin upp varðandi núverandi forseta, Turgay Demirel. Nýtur hann ekki stuðnings tyrkneska körfuknattleikssambandsins, sem ætti að teljast hans bakland. Formaður þess er Hidayet Turkoglu sem lék lengi í NBA og lék til úrslita með Orlando Magic árið 2009 þegar liðið tapaði fyrir LA Lakers. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert