Missti sig eftir flautukörfu Hauks

Haukur Helgi Pálsson stóð vel fyrir sínu í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson stóð vel fyrir sínu í kvöld. Ljósmynd/@nanterre_92basket

Haukur Helgi Pálsson átti góðan leik fyrir Nanterre í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Elan Bernais, 101:65, í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitunum um franska meistaratitilinn í körfuknattleik.

Haukur var næststigahæstur í liði Nanterre með 15 stig og tók auk þess 4 fráköst á þeim 17 mínútum sem hann spilaði, en á blaðamannafundi eftir leik sagði þjálfari Nanterre að Haukur hefði fundið fyrir minni háttar meiðslum í ökkla.

Haukur skoraði meðal annars flautukörfu í lok fyrri hálfleiks þegar hann jók forskot Nanterre í 50:33, eftir að hafa hirt sóknarfrákast með bakið í körfuna. Óhætt er að segja að franskur sjónvarpsþulur leiksins hafi hrifist af tilþrifunum, eins og heyra má hér að neðan:

Næsti leikur í einvíginu er á sunnudag á heimavelli Elan Bernais.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert