Naumt tap í átta liða úrslitum

Hilmar Smári Henningsson skoraði 19 stig og tók ellefu fráköst …
Hilmar Smári Henningsson skoraði 19 stig og tók ellefu fráköst gegn Tékkum. Ljósmynd/FIBA

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði naumlega fyrir Tékklandi í átta liða úrslitum í B-deild Evrópumótsins í Portúgal í dag. Leiknum lauk með tíu stiga sigri Tékka, 77:67, en mikið jafnræði var með liðunum í leiknum.

Ísland leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta en Tékkar jöfnuðu metin í öðrum leikhluta og staðan því 34:34 í hálfleik. Tékkar reyndust sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og var staðan 59:52 fyrir fjórða leikhluta.

Þegar rúm mínúta var til leiksloka var staðan 69:64, Tékkum í vil, og íslenska liðið var með boltann. Það missti hann klaufalega og Tékkar brunuðu upp í sókn, skoruðu og þar með var leikurinn svo gott sem búinn.

Bjarni Jónsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 20 stig, sex fráköst og eina stoðsendingu og Hilmar Smári Henningsson skoraði 19 stig og tók ellefu fráköst. Ísland leikur því um 5.-8. sætið á mótinu en ekki er ennþá ljóst hverjir mótherjar íslenska liðsins verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert