Pedersen óviss með framhaldið

Craig Pedersen á hliðarlínunni í kvöld.
Craig Pedersen á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karlaliðsins í körfubolta, var afar svekktur eftir 85:109-tap liðsins fyrir Sviss í forkeppni EM 2021. Ísland mátti ekki tapa með meira en 19 stigum en 24 stiga tap þýðir að Sviss fer áfram í undankeppnina en Ísland situr eftir með sárt ennið. 

„Þeir spiluðu bara betur en við. Við spiluðum ekki nægilega vel. Við tókum ekki nógu mikið af fráköstum og þeir skoruðu 24 stig gegn 4 hjá okkur eftir fráköst og 17 stig til viðbótar eftir að við misstum boltann," sagði Kanadamaðurinn við mbl.is eftir leik. 

Hann segir þá staðreynd að Ísland mátti tapa leiknum með 19 stigum ekki hafa haft áhrif á leik liðsins.  

„Það leit ekki þannig út í byrjun og staðan var fín fyrir fjórða leikhlutann. Þá fá þeir auðveldar körfur og við misstum þetta mjög fljótt úr okkar höndum. Stemningin var með þeim og áhorfendum í stúkunni og við brugðumst ekki nægilega vel við.

Ansi langt er síðan Ísland vann á útivelli og segir Pedersen það einfaldlega erfitt að spila á útivelli í evrópskum körfubolta. 

„Það er erfitt að spila á útivelli í Evrópu. Hvorki Sviss né Portúgal unnu á útivelli í þessari keppni. Það er meiri orka í liðum á heimavelli og stuðningurinn skiptir mjög miklu máli. Það sést þegar við erum á heimavellinum okkar."

Hann er ekki viss hvað tekur við hjá sér, en ljóst er að langt er í næsta leik hjá liðinu. „Ég er ekki viss, ég hef ekki pælt í því. Leikmenn gera sig nú tilbúna fyrir tímabilin hjá félagsliðunum. Ég mun tala við KKÍ fljótlega og sjá hvað gerist," sagði Pedersen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert