Þetta er rosalega súrt

Martin með boltann í leiknum í kvöld.
Martin með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/FIBA

„Þetta er rosalega súrt," sagði Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir 85:109-tap fyrir Sviss á útivelli í forkeppni EM 2021. Martin var besti maður Íslands í leiknum og skoraði 28 stig. 

Ísland mátti tapa leiknum með 19 stiga mun til að fara áfram í undankeppnina. Svisslendingar voru hins vegar mikið sterkari í dag og tryggðu sér 24 stiga sigur og farseðil í undankeppnina. 

„Við þurfum að horfa á þennan riðil aftur og sjá hvað við gerðum vel. Það er auðvitað margt mjög jákvætt miðað við tímann sem við höfðum saman. Við þurfum að nýta þetta á réttan hátt og byggja ofan á það góða og verða betri," sagði Martin brattur, þrátt fyrir vonbrigðin. 

Martin Hermannsson í leiknum gegn Sviss í Laugardalshöll.
Martin Hermannsson í leiknum gegn Sviss í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við verðum að læra að vera í þessari stöðu og þessum leikjum. Við verðum að kunna að vinna þá, það vantaði smá reynsluna hjá okkur í dag. Við vorum aðeins of værukærir og rólegir, í staðinn fyrir að ná í þennan leik og vinna hann."

Aftast í hausnum á manni

Martin viðurkennir að það hafi haft áhrif á leikmenn íslenska liðið, að leikurinn mátti tapast. 

„Auðvitað veit maður að þessu, maður er mennskur og þetta er aftast í hausnum á manni. Við vorum allt of slakir mestan hluta leiks. Þegar þeir voru komnir yfir var of seint fyrir okkur að keyra okkur í gang, sérstaklega á útivelli með allt þeirra fólk með þeim. Þetta var svissneskur dagur í dag og það gekk lítið upp hjá okkur."

Íslenska liðið byrjaði vel og var með 29:25-forskot eftir fyrsta leikhlutann. Sviss vann hins vegar 29:18-sigur í öðrum leikhluta og var íslenska liðið í vandræðum eftir það. 

„Við byrjuðum rosalega vel og vorum að hitta vel. Það var kannski vitað að það myndi ekki halda áfram allan leikinn. Við vorum hræðilegir í vörn í dag, við vorum að brjóta á mönnum í þriggja stiga skoti, gefa opin skot, gefa sóknarfráköst. Það gekk allt upp hjá Sviss í dag. Ég veit ekki hvort þeim hafi langað þetta meira, eða hvort við vorum einfaldlega ekki nógu góðir. 

Við erum með ungt lið og það var kannski vitað að við værum ekki á leiðinni á næsta stórmót. Það er samt svekkjandi að hafa verið í þessari stöðu og hafa átt möguleika. Við lærum af þessu og verðum betri," sagði Martin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert