Spánverjar heimsmeistarar

Sergio Llull dripplar boltanum í úrslitaleiknum í dag.
Sergio Llull dripplar boltanum í úrslitaleiknum í dag. AFP

Spánverjar eru heimsmeistarar í körfuknattleik eftir sannfærandi 95:75-sigur á Árgentínu í úrslitaleiknum í Beijing í Kína. Þetta er í annað sinn sem Spánn fagnar heimsmeistaratitlinum en liðið vann einnig til gullverðlauna í Japan árið 2006.

Bæði lið bundu miklar vonir við stjörnuleikmenn sína og var búist við því að Argentínumaðurinn Luis Scola og Spánverjinn Marc Gasol myndu hafa mikið að segja um úrslit dagsins. Það reyndist Argentínumönnum því nokkurt áhyggjuefni að Scola var enn stigalaus í hálfleik.

Spánverjar höfðu yfirhöndina frá byrjun en þeir unnu fyrstu þrjá leikhlutana og byggðu upp nokkuð sterka forystu. Staðan var 43:31 í hálfleik og 66:47 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Argentínumenn blésu til sóknar í fjórða og síðasta leikhluta og ógnuðu endurkomu í smá tíma en þeim tókst að minnka muninn niður í 12 stig þegar sex mínútur voru eftir af leiknum.

Ógnarsterkt lið Spánar hélt hins vegar ró sinni, þétti varnarleikinn og sigldi sigrinum heim að lokum með sannfærandi mun. Marc Gasol var drjúgur í liði heimsmeistaranna, skoraði 14 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Stigahæstur hjá Spánverjum var Ricky Rubio með 20 stig en Gabriel Deck skoraði 24 stig fyrir Argentínu og var stigahæstur allra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert