Samfélagið í Grindavík vill fá sigur í hverjum leik

Daníel Guðni ræðir við sína menn í kvöld.
Daníel Guðni ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, var vitaskuld svekktur eftir 93:97-tap fyrir Haukum í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. Grindavík er án stiga eftir þrjá leiki, en hefði með smá heppni getað fengið tvö stig í kvöld. 

„Ég get ekki sagt að þetta hafi verið okkar besti leikur. Við höfum spilað fínan sóknarleik í þessum og síðasta leik þannig séð. Við erum hins vegar lélegir í vörninni og það er mjög slæmt,“ sagði Daníel við mbl.is. 

Staðan var jöfn þegar tvær mínútur voru til leiksloka en þá fékk Bandaríkjamaðurinn Jamal Olasawere sína fimmtu villu og Grindvíkingar lentu í erfiðleikum. 

„Við gleymum okkur aðeins í vörninni á lokamínútunum og það svíður. Þeir hittu líka úr stórum skotum. Gerald átti flottan leik, því miður fyrir okkur. Hann skoraði meira en 20 stig og það er slæmt.

Þeir voru búnir að spila svona vörn allan helvítis leikinn, báðir tveir. Að fá fimmtu villuna fyrir svona fannst mér lélegt. Það svíður þegar besti sóknarleikmaðurinn fer út af fyrir svona. Ég veit ekki alveg með þetta,“ sagði Daníel svekktur um fimmtu villu Olasawere. 

Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Grindavík eins og Litháinn Valdas Vasylius.

Valdas er búinn að vera hérna í tvo daga og hann lofar góðu. Þetta er fínn leikmaður sem getur hjálpað okkur gríðarlega mikið. Við þurfum að slípa varnarleikinn betur saman og vita hvað við ætlum að gera. Það er leiðinlegt og lélegt að sjá hann núna.“

Daníel tók við Grindavík fyrir leiktíðina og hefur liðið tapað öllum þremur deildarleikjunum undir hans stjórn. 

„Það er alltaf áhyggjuefni. Menn vilja fá sigur í hverjum leik og samfélagið í Grindavík vill fá sigur í hverjum leik. Það er mjög súrt að sigurinn sé ekki kominn,“ sagði Daníel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert