Gríðarleg stemning í Staples Center í nótt

LeBron James og Kawhi Leonard takast á í Staples Center …
LeBron James og Kawhi Leonard takast á í Staples Center í nótt. AFP

Upphafsleikir NBA-deildarinnar fóru fram í nótt og vorum við á Morgunblaðinu að venju í Staples Center, í þetta sinn að fylgjast með innbyrðisviðureign Clippers og Lakers.

Það var úrslitakeppnisandrúmsloft fyrir utan höllina þegar ég mætti á staðinn. TNT-sjónvarpsstöðin hafði sett upp stúdíó fyrir framan aðalinnganginn og þar voru Shaq og Charles Barkley að skemmta sér að venju. Mikil eftirvænting var fyrir þessum leik hér í Englaborg, enda bæði lið talin munu blanda sér í meistarabaráttuna.

„Fólk var að tala um í sumar að hin og þessi lið hefðu unnið kapphlaupið í að nappa í leikmenn. Raunverulegi sigurvegarinn var Staples Center,” sagði LeBron James nýlega. Það er erfitt að mótmæla því og þegar ég mætti inn í höllina var eins og ég væri staddur í lokaúrslitunum. Blaðamannastúkan var svo yfirfull að það þurftu nokkrir að standa baka til í efri stúkunni.

Kawhi Leonard lék sinn fyrsta leik fyrir Clippers, en Paul George var enn frá þar sem hann er að jafna sig eftir uppskurð. Hjá Lakers voru bæði James og Anthony Davis í byrjunarliðinu, en unga stjarnan Kyle Kuzma og Rajon Rondo voru meiddir. Bæði lið voru sýnilega spennt að finna út hvort liðið væri betra. Lakers hóf þennan leik vel, en Clippers náðu þó að jafna um miðjan fyrri hálfleikinn og náðu tíu stiga forskoti í hálfleik.

Kawhi Leonard var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð …
Kawhi Leonard var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð en hann gekk til liðs við Clippers frá Toronto Raptors í sumar. AFP

Mikil stemning í höllinni

Það var virkilega gaman að vera í höllinni þar sem vel yfir helmingur áhorfenda studdu gestalið Lakers og áhorfendur höfðu sýnilega beðið eftir þessum leik lengi eftir leikmannaskiptin í sumar hjá báðum liðum. Leonard ávarpaði áhorfendur fyrir leikinn til að bjóða stuðningfólk Clippers velkomið á nýtt leiktímabil, en hann var púaður niður af stuðningsfólki Lakers í höllinni.

Síðast man ég eftir slíkri stemmingu í Staples Center þegar Bretinn Tyson Fury skoraði á Bandaríkjamanninn Deontay Wilder í baráttunni fyrir heimsmeistaratitlinum í þungavigt í hnefaleikum í desember, en þá var um helmingur áhorfenda á bandi hvors kappa í rosalegu andrúmslofti.

Danny Green fór í gang fyrir Lakers í þriðja leikhlutanum. Hann setti 18 stig á töfluna í leikhlutanum og að honum loknum var allt í járnum, 85:85. Clippers sýndi hins vegar af hverju liðið er talið sigurstranglegt í deildinni og Leonard var þar í fararbroddi. Hann lék firnagóða vörn gegn LeBron James í lokaleikhlutanum og það var fyrst og fremst góður varnaleikur Clippers sem skóp góðan fyrsta sigur á leiktímabilinu, 112:102.

Allan seinni hálfleikinn var mikil stemming í höllinni og þetta var hörkuleikur, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að þetta var opnunarleikur liðanna. LeBron James lék mikið í stöðu leikstjórnanda fyrir Lakers og því verða þjálfarar liðsins að breyta. Hann nýtist ekki liðinu eins vel í þeirri stöðu. Hann lék oft tveggja manna leik með Anthony Davis og það njörvaði leik liðsins niður. Þessir kappar misstu 25 af 40 skotum sínum í leiknum og slík skotnýting er ekki uppskrift fyrir sigri. „Varnarleikur þeirra tók yfir leikinn í seinni hálfleiknum og sóknarleikur okkar riðlaðist. Við gerðum einnig of mikið af mistökum í sókninni í fjórða leikhlutanum, en þetta var bara fyrsti leikurinn hjá okkur og við munum mæta á æfingu á morgun og kíkja á upptöku af leiknum. Við erum með nýja leikmenn og þjálfarahóp þannig að það mun taka tíma að ná þessu réttu,” sagði James í leikslok.

Fyrir Clippers var þetta góð byrjun. Keppnisandinn, sem var svo smitandi fyrir liðið á síðasta keppnistímabili, var enn til staðar og þar lék Patrick Beverley aðalhlutverkið að venju. Leonard sýndi einnig að hann er toppleikmaður sem getur gert hvaða lið sem er að meistarakandídat. Þetta var góð byrjun á keppnistímabilinu í NBA-deildinni og það er sýnilegt að það á eftir að verða góður rígur þessara Los Angeles-liða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert