Áföllin dynja á meisturunum

Jón Arnór Stefánsson og Michael Craion eru báðir að glíma …
Jón Arnór Stefánsson og Michael Craion eru báðir að glíma við meiðsli. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Áföllin dynja á Íslandsmeisturum KR í körfubolta. Jón Arnór Stefánsson og Michael Craion eru að glíma við meiðsli og þá verður Kristófer Acox frá í einhvern tíma vegna erfiðra nýrnaveikinda. 

Jón Arnór spilar ekki síðustu tvo leiki KR á árinu og er óljóst hvor hann verði klár í fyrsta leik eftir áramót. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari staðfesti tíðindin.

KR mætir Val á heimavelli í Dominos-deildinni á morgun og heimsækir síðan Þór Akureyri 19. desember. Fyrsti leikur KR-inga eftir áramót er gegn Grindavík á útivelli 5. janúar. Jón missir í það minnsta af fyrri tveimur leikjunum vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Tindastóli. Jón hefur spilað leiki eftir að hann meiddist en nú mun vera kominn tími á hvíld til að geta náð sér. 

Þá er Michael Craion einnig að glíma við meiðsli, en þau eru ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu. Bandaríkjamaðurinn er meiddur á hné og var óttast að hann væri með slitið krossband, en svo er ekki. Óvíst er hvort Craion verði klár í slaginn á morgun. 

Þá er Kristófer Acox með nýrnabilun og verður frá í einhvern tíma, eins og mbl.is greindi frá í vikunni. KR-ingar eru því án þriggja lykilleikmanna. Gengi KR-inga að undanförnu hefur verið slæmt og hefur liðið tapað fimm af síðustu sex leikjum í öllum keppnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert