Yfirgefur Stjörnuna vegna veikinda

Jamar Akoh í leik með Stjörnunni.
Jamar Akoh í leik með Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

Bandaríski körfuboltamaðurinn Jamar Akoh hefur yfirgefið Stjörnuna vegna veikinda. Stjarnan staðfesti tíðindin á facebooksíðu sinni í kvöld. 

Akoh lék átta leiki með Stjörnunni og skoraði 16,6 stig, tók 9,4 fráköst og gaf 0,4 stoðsendingar að meðaltali. Hann lék síðast gegn Þór Akureyri 20. nóvember síðastliðinn þar sem hann skoraði 17 stig og tók fimm fráköst. 

Að sögn Stjörnunnar komu upp heilsufarsvandamál hjá Akoh fyrir tveimur vikum og hafa íslenskir læknar ekki komist að orsökum veikindanna. Hann hefur því snúið aftur til Bandaríkjanna þar sem hann verður nær fjölskyldu og vinum. 

„Stjarnan þakkar Jamar fyrir samstarfið og óskar honum góðs bata. Hann er flottur íþróttamaður sem hefur staðið sig með miklum sóma þann tíma sem hann var hjá Stjörnunni,“ segir í yfirlýsingu sem Stjarnan sendi frá sér í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert