Stórstjörnurnar léku á als oddi

LeBron James var stigahæstur að vanda hjá Lakers og var …
LeBron James var stigahæstur að vanda hjá Lakers og var með tvöfalda tvennu. AFP

Stórstjörnurnar fóru á kostum þegar Los Angeles Lakers vann 124:115-útisigur gegn Houston Rockets í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. LeBron James skoraði 31 stig og gaf tólf stoðsendingar fyrir Lakers í leiknum og þá skoraði Kyle Kuzma 23 stig.

Hjá Houston fóru þeir James Harden og Russell Westbrook mikinn. Harden var með 34 stig og sjö stoðsendingar og Westbrook skoraði 35 stig og tók níu fráköst. Lakers er í efsta sæti Vesturdeildarinnar með 34 sigra en Houston er í sjötta sætinu með 26 sigra.

Giannis Antekounmpo var öflugur að vanda fyrir lið sitt Milwaukee Bucks þegar liðið vann 20 stiga sigur gegn Brooklyn Nets í New York. Leiknum lauk með 117:97-sigri Bucks en Antekounmpo skoraði 29 stig í leiknum  og tók tólf fráköst.

Bucks byrjuðu leikinn betur og leiddu með fimmtán stigum í hálfleik, 57:42. Nets voru aldrei líklegir til þess að koma til baka í síðari hálfleik. Kyrie Irving náði sér ekki á strik hjá Brooklyn en hann skoraði 17 stig og gaf sex stoðsendingar.

Bucks eru með öruggt forskot á toppi Austurdeildarinnar en liðið hefur unnið 38 leiki í deildinni í vetur og aðeins tapað sex. Miami Heat kemur þar á eftir í öðru sætinu með 29 sigra og 12 töp en Brooklyn er í áttunda sæti Austurdeildarinnar með 18 sigra.

Þá fór Kawhi Leonard á kostum í 133:130-sigri LA Clippers gegn New Orleans Pelicans á útivelli en besti leikmaður úrslitakeppninnar í fyrra gerði sér lítið fyrir og skoraði 39 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Meistaraefnin í LA Clippers eru með 30 sigra í þriðja sæti Vesturdeildarinnar en þar tróna nágrannar þeirra í LA Lakers sem fyrr. Denver Nuggets er í öðru sæti Vesturdeildarinnar með 29 sigra.

Úrslit næturinnar í NBA:

New Orleans Pelicans 130:133 LA Clippers
Brooklyn Nets 97:1117 Milwaukee Bucks
Boston Celtics 119:123 Phoenix Suns
Atlanta Hawks 103:136 Detroit Pistons
New York Knicks 87:90 Philadelphia 76ers
Chicago Bulls 118:116 Cleveland Cavaliers
Minnesota Timberwolves 112:122 Toronto Raptos 
Houston Rockers 115:124 Los Angeles Lakers
Golden State Warriors 109:95 Orlando Magic
Oklahoma City Thunder 119:106 Portland Trail Blazers
Utah Jazz 123:101 Sacramento Kings

Kawhi Leonard skoraði 39 stig gegn Pelicans í nótt.
Kawhi Leonard skoraði 39 stig gegn Pelicans í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert