Magnaður kafli hjá nýliðanum - þjálfarinn varð að taka hann út af

Zion Williamson fer fram hjá LaMarcus Aldridge, leikmanni San Antonio …
Zion Williamson fer fram hjá LaMarcus Aldridge, leikmanni San Antonio Spurs, í leiknum í New Orleans í nótt. AFP

Nýliðinn sem aðdáendur NBA-körfuboltans hafa beðið óþreyjufullir eftir að sjá á vellinum í búningi New Orleans Pelicans í vetur, sá til þess að þeir fengu að sjá mögnuð tilþrif í nótt þegar lið hans fékk San Antonio Spurs í heimsókn.

Hinn 19 ára gamli Zion Williamson, sem af mörgum er talinn besti nýliði deildarinnar frá því LeBron James mætti til leiks í byrjun aldarinnar, lék loksins sinn fyrsta leik með liðinu eftir að hafa misst af fyrstu 43 leikjum tímabilsins vegna meiðsla. Eftir að hafa spilað upphafsmínúturnar og síðan smákafla eftir það tók hann leikinn í sínar hendur á fjögurra mínútna kafla í fjórða leikhluta, skoraði 17 stig sinna manna í röð og New Orleans vann upp gott forskot Spurs.

Williamson var skipt af velli þegar fimm mínútur voru eftir og kom ekki meira við sögu, áhorfendum í New Orleans til lítillar skemmtunar. Alls skoraði nýliðinn 22 stig, tók 7 fráköst og átti 3 stoðsendingar á þeim 18 mínútum sem hann spilaði.

Alvin Gentry, þjálfari New Orleans, útskýrði á fréttamannafundi eftir leik hvers vegna hann hefði tekið strákinn af velli og ekki notað hann meira. „Ég er ekki klárasti þjálfari í heimi en ég hefði ekki tekið hann af velli nema vegna þess að mér var sagt að gera það. Hann gat ekki farið aftur inn á, sjúkrateymið okkar stjórnaði því alveg hve mikið hann myndi spila,“ sagði Gentry.

„Þetta var mjög erfitt. Á þessari stundu var ég ekki að hugsa til lengri tíma, ég vildi vinna leikinn, þannig að þetta var mjög erfitt,“ sagði Williamson við fréttamenn en New Orleans tapaði leiknum á lokasprettinum, 117:121.

Úrslitin í nótt:

Toronto - Philadelphia 107:95
Detroit - Sacramento 127:106
Orlando - Oklahoma City 114:120
New York - LA Lakers 92:100
Boston - Memphis 119:95
Miami - Washington 134:129 (eftir framlengingu)
Atlanta - LA Clippers 102:95
Chicago - Minnesota 117:110
Houston - Denver 121:105
Phoenix - Indiana 87:112
New Orleans - San Antonio 117:121
Golden State - Utah 96:129

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert