Minntust Kobe Bryants í leikjum næturinnar

Kobe Bryant var á stórum skjá í höllinni í New …
Kobe Bryant var á stórum skjá í höllinni í New Orleans fyrir leik liðsins gegn Boston í nótt. AFP

Átta leikir í NBA-deildinni í körfuknattleik fóru fram í gærkvöld og nótt, í skugga þyrluslyssins í Kaliforníu þar sem stórstjarnan Kobe Bryant lét lífið ásamt dóttur sinni og sjö öðrum.

Hans var minnst á öllum leikjunum og meðal annars létu leikmenn bæði San Antonio Spurs og Toronto Raptors 24 sekúndur líða án þess að nokkur hreyfði sig úr stað á vellinum, nema sá sem stóð og driplaði boltanum, þegar þau mættust í San Antonio. 

Sama gerðu lið New Orleans Pelicans og Boston Celtics og í Madison Square Garden var Bryants minnst með mikilli myndasýningu fyrir leik New York Knicks og Brooklyn Nets.

Trae Young, leikmaður Atlanta Hawks, mætti í treyju númer 8 til leiks gegn Washington Wizards, til heiðurs Kobe Bryant sem var með það númer framan af ferlinum. Young skoraði 45 stig og átti 14 stoðsendingar í sigri Atlanta og sagði eftir leikinn: „Það var erfitt að spila körfubolta í dag. Ég votta Vanessu og Bryant-fjölskyldunni samúð mína. Ég vildi bara spila þennan leik fyrir hann.“

Trae Young var einn af uppáhaldsleikmönnum Giönnu Bryants, dóttur Kobe sem fórst í slysinu og höfðu þau feðginin farið saman sérstaklega til Atlanta til að horfa á hann spila í NBA-deildinni.

Úrslitin í nótt:

Atlanta - Washington 152:133
Memphis - Phoenix 114:109
New Orleans - Boston 123:108
New York - Brooklyn 110:97
Orlando - LA Clippers 97:112
Denver - Houston 117:110
San Antonio - Toronto 106:110
Portland - Indiana 139:129

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert