Sé bara blóð, svita og tár

Lárus Jónsson þjálfari Þórs hvetur sína menn í leiknum í …
Lárus Jónsson þjálfari Þórs hvetur sína menn í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs á Akureyri, stýrði liði sínu til sigurs gegn KR í kvöld í Dominos-deild karla í körfubolta. Sigurinn hékk á bláþræði þar sem KR náði nánast að fullkomna endurkomu sína og vinna leikinn en Þór leiddi með 14 stigum þegar skammt var til loka. Þrátt fyrir æsilegan lokakafla draup hvergi af Lárusi sem virkaði mjög rólegur.

„Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið langþráður sigur. Við áttum að spila þennan leik 19. desember og okkur er búið að langa í þennan sigur síðan þá. Við vorum vel yfir í hálfleik en vissum að KR gæti komið til baka, sem þeir að lokum gerðu. Í leikplani okkar var búið að ákveða að taka ekki leikhlé, sama hvað gengi á. Við vildum ekki að KR-ingar fengju tóm til að hvíla sig. Ég veit ekki hversu vel heppnað þetta var þar sem KR-ingar komust inn í leikinn á lokakaflanum,“ sagði Lárus við mbl.is.

Þór var gjörsamlega með leikinn allan tímann, þar til í lokin. Þið hafið 24 stiga forskot í hálfleik, eruð með 14 stig þegar fjórar mínútur eru eftir og ekkert sem benti til þess að KR gæti átt lokaskot fyrir sigri í leiknum. Hvað gerðist hjá ykkur?

„Ég myndi helst vilja benda á seigluna í þessu KR-liði. Þeir eru reynslumiklir og hafa eintóma gæðaleikmenn. Við vissum að þeir myndu gera atlögu og myndu reyna að koma til baka. Við svo gerðum okkur erfitt fyrir með því að klúðra þremur galopnum sniðskotum í byrjun seinni hálfleiks. Þar hefðum við getað gert út um vonir KR um að komast aftur inn í leikinn.

Þeir komust á bragðið og voru að narta í okkur allan seinni hálfleikinn. Þrátt fyrir að þeir væru að nálgast meir og meir í lokin þá leið mér þannig að við myndum klára leikinn með hraðanum. Kannski var það vitlaus niðurstaða að taka ekki leikhlé þegar munurinn var orðinn að engu en maður verður að lifa og deyja með sínum ákvörðunum. Við vitum ekkert hverju það hefði breytt í leiknum. Kannski hefðum við unnið með tíu stigum en kannski hefðum við tapað leiknum.“

Ég heyri að þú hugsar út í ýmis atriði. Þið eruð með yngra og sprækara lið, KR-ingar bara með átta leikmenn. Það átti að keyra hratt og gefa KR-ingum fá færi á að hvílast með því að sleppa því að taka leikhlé.

„Málið er að reyna að nýta sína styrkleika. Ég vildi hlaupa völlinn vel og hafa hraðan leik. Ég sá fyrir mér að ef leikurinn færi meira á hálfan völl þá yrði virkilega erfitt að eiga við kerfin þeirra. Þau ganga svo mikið út á að losa mann í opið skot og þessi leikaðferð þeirra og góð hittni hleypti KR aftur inn í leikinn.“

Leið ekkert allt of vel á tímabili

En þér leið aldrei illa?

„Mér leið ekkert allt of vel á tímabili. Mér fannst við ekki velja réttu skotin, sættum okkur við löng tveggja stiga skot í stað þess að keyra á körfuna. Við hurfum frá því sem hafði verið að virka og fengum þá engar körfur. Þetta er kannski dæmigert þegar lið byrjar að hika aðeins í sóknunum. Skotklukkan gengur og á endanum þarf að taka af skarið. Við erum samt gríðarlega ánægðir með að hafa landað þessu. Það sem skóp sigurinn var greddan í vörninni í fyrri hálfleik. Grunnurinn að sigrinum var lagður þá og við áttum inni fyrir því sem gerðist í lokin.“

Nú eru Þórsarar búnir að vinna fimm af síðustu sjö leikjum, eftir að hafa verið afskrifaðir löngu fyrir mót. Byrjunin var erfið, átta tapleikir. Nú er staðan allt önnur og hörð barátta fram undan. Hvað sérðu fyrir þér í næstu leikjum?

„Næsti leikur er við Tindastól á okkar heimavelli, núna á fimmtudaginn. Ég sé bara fyrir mér alvöruleik. Það mun koma fullt af fólki frá Króknum. Það var mögnuð stemning hér í kvöld og ég sé fyrir mér að hún verði enn betri í troðfullri Höllinni á fimmtudaginn. Ég sé bara blóð, svita og tár,“ sagði helsáttur Lárus að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert