Keflvíkingurinn valin best í Bandaríkjunum

Thelma Dís Ágústsdóttir í leik með Keflavík.
Thelma Dís Ágústsdóttir í leik með Keflavík. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Thelma Dís Ágústsdóttir, landsliðskona í körfubolta, var valin íþróttamaður vikunnar hjá Ball State-háskólanum í Indiana vestanhafs. Thelma skoraði 26 stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar í 69:58-sigri á Buffalo. 

Thelma hafði áður mest skorað 23 stig í einum leik í Bandaríkjunum, en hún hitti úr sex af sjö þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Er hún íþróttamaður vikunnar í annað skipti á leiktíðinni, en hún fékk sömu viðurkenningu í fyrstu viku vetrarins. 

Thelma er uppalin í Keflavík og lék með liðinu þar til hún hélt út. Þá hefur hún leikið með landsliðinu á undanförnum árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert