Martin bestur gegn toppliðinu

Martin, lengst til hægri, fylgist með gangi mála í leiknum …
Martin, lengst til hægri, fylgist með gangi mála í leiknum í kvöld. Ljósmynd/EuroLeague

Martin Hermannsson átti enn og aftur góðan leik fyrir Alba Berlín kvöld, þrátt fyrir að liðið hafi tapað á heimavelli fyrir Anadolu Efes frá Tyrklandi í Evrópudeildinni í körfubolta, 86:99. Deildin er sú sterkasta í Evrópu. 

Martin var stigahæstur í sínu liði með 19 stig og þá gaf hann átta stoðsendingar, eins og Luke Sikma og voru þeir með flestar stoðsendingar hjá þýska liðinu. Martin tók einnig tvö fráköst. 

Íslenski bakvörðurinn hefur átt ótrúlega góðu gengi að fagna síðustu vikurnar og var hann kjörinn besti leikmaður vallarins er Alba Berlín varð bikarmeistari á dögunum. Örfáum dögum seinna var hann kosinn besti leikmaður umferðarinnar í Evrópudeildinni. 

Martin og félagar eru í 15. sæti deildarinnar með 9 sigra og 17 töp. Anadolu Efes er í toppsætinu með 23 sigra og 3 töp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert