Njarðvíkingurinn besti bakvörðurinn í Svíþjóð

Elvar Már Friðriksson átti frábært tímabil með Borås í efstu …
Elvar Már Friðriksson átti frábært tímabil með Borås í efstu deild Svíþjóðar. Ljósmynd/Borås

Körfuknattleikskappinn Elvar Már Friðriksson sem leikur með Borås í efstu deild Svíþjóðar var valinn besti bakvörður deildarinnar í dag. Elvar gekk til liðs við Borås fyrir tímabilið frá uppeldisfélagi sínu Njarðvík og átti frábært tímabil í Svíþjóð en lið hans Borås var krýnt meistari eftir að keppni var hætt í Svíþjóð vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina.

Borås var með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar eftir 33. umferðir en úrslitakeppni deildarinnar var blásin af vegna veirunnar. Elvar spilaði alla 33 leiki Borås á tímabilinu, skoraði 17 stig að meðaltali í leik og gaf átta stoðsendingar. Hann var stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar og stigahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu. 

„Bakvörðurinn ársins í deildinni fékk ansi erfitt hlutverk í upphafi tímabilsins þegar hann þurfti að fylla í skarð Nimrod Hilliard sem var valinn besti bakvörður deildarinnar á síðustu leiktíð,“ segir í umfjöllun deildarinnar um Elvar. „Sóknarleikur liðsins var byggður í kringum Hilliard en þvílíkt tímabil sem Íslendingurinn hefur átt í Svíþjóð.“

„Hann er bæði harður af sér og einstaklega svalur á því í öllum sínum aðgerðum. Hann leiddi liðið til sigurs í deildinni og þá hefur hann verið einn af betri sóknar- og varnarmönnum deildarinnar í ár,“ segir í umsögn deildarinnar um íslenska landsliðsmanninn. Elvar fékk 44% kosningu í valinu á bakverði deildarinnar en Brandon Rozzell, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar í úrvalsdeild karla, hafnaði í öðru sæti með 24% atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert