Tímanum sagt stríð á hendur

LeBron James ætlar sér fyrst og fremst að vinna meistaratitilinn …
LeBron James ætlar sér fyrst og fremst að vinna meistaratitilinn með Los Angeles Lakers. En verður hann kjörinn besti leikmaðurinn? AFP

LeBron James hefur í vetur gert atlögu að því að vera valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í fimmta sinn.

Árið 2003, þegar LeBron James hóf atvinnumannsferil sinn í NBA-deildinni, var talið að það yrðu mikil vonbrigði ef hann yrði ekki einn af bestu leikmönnum deildarinnar. Hann þurfti jafnvel að verða einn sá besti í sögunni til að standa undir væntingunum sem til hans voru gerðar.

James hafði verið valinn fyrstur í nýliðavalinu sama ár eftir að hafa leikið sér að jafnöldrum sínum í menntaskóla á körfuboltavellinum síðustu þrjú árin. Var til að mynda valinn í úrvalslið menntaskólaboltans í Bandaríkjunum á sínu öðru ári af fjórum í menntaskóla, fyrstur allra.

Á þessum tíma var leyfilegt að skrá sig beint í nýliðaval NBA eftir menntaskóla og sleppa því að fara í háskóla. James gerði það enda eins öruggt og það gat verið að hann yrði valinn fyrstur. Til að gera langa sögu stutta stóðst James allar þær væntingar sem til hans voru gerðar og meira en það. Hann hefur fjórum sinnum verið valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar, unnið meistaratitilinn þrisvar og komist átta ár í röð í lokaúrslit deildarinnar – síðasta árið, 2018, dró hann lið Cleveland Cavaliers þangað nánast einn síns liðs. Í tíu ár eða svo voru gárungar nokkuð sammála um að James væri besti leikmaður deildarinnar og um það var sjaldan deilt.

En enginn hefur náð að sigra tímann og margir héldu að LeBron James væri að lúta í lægra haldi í baráttunni á hans fyrsta tímabili hjá Los Angeles Lakers eftir að hafa samið við liðið sumarið 2018. James var á sínu sextánda ári í deildinni og lítið virtist ganga hjá liðinu. Hann meiddist á nára um jólin það tímabilið og endaði á því að fylgjast með úrslitakeppninni úr sófanum heima í fyrsta skipti síðan 2005. Héldu margir að James væri hérumbil búinn að gefast upp, hann hefði flutt til Borgar englanna til að slaka á og njóta veðursins. Jafnvel færa sig yfir í kvikmyndir en síðasta sumar fóru fram upptökur í Los Angeles á nýrri Space Jam-mynd sem James leikur aðalhlutverk í.

Anthony Davis og LeBron James ræða málin í leik með …
Anthony Davis og LeBron James ræða málin í leik með Lakers í vetur. AFP


Blómstrar í nýju hlutverki

Á þessu keppnistímabili – sem gæti jafnvel verið aflýst á endanum – hefur James hins vegar komið mörgum á óvart, að minnsta kosti gagnrýnendum sínum. Hann hefur leitt Lakers á topp vesturdeildarinnar sem er hlaðin erfiðum andstæðingum, breytt leikstíl sínum og verið algjör leiðtogi innan liðsins. Anthony Davis kom til Lakers síðasta sumar frá New Orleans Pelicans í skiptum fyrir nánast hálft lið Lakers og valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins næstu árin. Með hann innanborðs hefur James tekið á sig hlutverk nokkuð frábruðgið því sem hann er vanur, leikið að miklu leyti sem leikstjórnandi liðsins.

Hefur þetta leitt til þess að James, sem þó er vanur að mata liðsfélaga sína með stoðsendingum, hefur gefið fleiri slíkar en nokkurn tímann áður á ferlinum. Er hann raunar langstoðsendingahæstur í deildinni með 10,6 í leik. Þá virðist tíminn vera að lúta í lægra haldi fyrir James sem enn stekkur ótrúlega hátt og treður yfir mann og annan þegar hann lystir. Líklega hefur hægst eitthvað á kappanum frá því hann var í sínu besta formi en hann virðist bæta það upp með miklum leikskilningi sem virðist aukast ár frá ári.

Þá hefur Lakers-liðið komið mörgum á óvart og myndast mikil liðsheild innan þess. Fyrrnefndur Davis hefur verið frábær eins og búist var við en frammistaða minni spámanna hefur skipt sköpum fyrir liðið en það missti marga menn frá sér síðasta sumar. Miðherjinn Dwight Howard, sem eitt sinn var með bestu leikmönnum deildarinnar, hefur blómstrað í nýju hlutverki sem varamaður hjá Lakers. Þá hefur hinn vinsæli Alex Caruso spilað vel, sérstaklega varnarlega. Einnig hefur Kyle Kuzma skilað sínu. Liðsheildin hefur verið aðalsmerki liðsins þótt þeir James og Davis beri mestan þungann af stigaskoruninni.

Ekki verið mikilvægastur í sjö ár

Þrátt fyrir að hafa verið óumdeilanlega besti leikmaður deildarinnar hið minnsta frá árinu 2010 til ársins 2018 hefur James aðeins fjórum sinnum verið valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar. Er það miður því það er einn þáttanna sem litið er til þegar arfleifð leikmanna er skoðuð, ásamt fjölda meistaratitla auðvitað. James var valinn sá mikilvægasti fjórum sinnum á árunum 2009-2013 en aldrei á þeim fimm næstu. Auðvitað voru á þeim árum leikmenn sem áttu frábær tímabil eins og Stephen Curry tímabilið 2015-16 þegar Golden State Warriors setti met yfir flesta sigra á einu tímabili.

Flestir eru þó sammála um að James hefði mátt hljóta nafnbótina að minnsta kosti einu sinni á þessum árum og eiga þar með fimm slíka tilta líkt og goðsögnin og átrúnaðargoð hans, Michael Jordan. En er þá ekki hægt að velja hann þann mikilvægasta í ár? Hann hefur jú átt frábært tímabil og er óumdeilanlega mikilvægasti leikmaður Lakers-liðsins sem virðist líklegt til að gera atlögu að titilinum.

Því miður verður það að teljast mjög ólíklegt þar sem á toppi austurdeildarinnar trónir Milwaukee Bucks sem í vetur hefur verið langbesta liðið í NBA. Besti leikmaður liðsins er gríska undrið Giannis Antetokounmpo, sem hefur átt ótrúlegt tímabil. Tölfræðilega hefur tímabil hans verið eitt það besta í sögu NBA-deildarinnar en hann hefur skorað 29,6 stig og tekið 13,7 fráköst í leik á aðeins 30,9 mínútum að meðaltali. Í allan vetur hefur verið nokkuð ljóst að Antetokounmpo muni verða valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar annað árið í röð.

LGiannis Antetokounmpo reynir að komast framhjá LeBron James í leik …
LGiannis Antetokounmpo reynir að komast framhjá LeBron James í leik Milwaukee Bucks og Lakers í Staples Center. AFP


Gerir miðlungslið eitt það besta

En þar sem ég er langt frá því að vera hlutlaus skulum við kafa aðeins dýpra og færa rök fyrir því af hverju LeBron James ætti að vera valinn mikilvægastur þegar og ef tímabilið klárast loks. Antetokounmpo hefur vissulega vinninginn þegar kemur að tölfræðinni. Hans tölfræði er eins og áður sagði frábær og talsvert betri en hjá James en það segir ekki alla söguna. Anthony Davis er með mjög góða tölfræði en þegar árangur Lakers er skoðaður með Davis og James báða inni á vellinum og annan þeirra út af kemur ýmislegt í ljós.

Þegar James og Davis eru báðir inná er Lakers-liðið frábært. Það er einnig tilfellið þegar Davis fer út af og James er inná. Þegar James er hins vegar út af og Davis inná er liðið miðlungslið í besta falli. Slíkt gefur sterklega til kynna hversu mikilvægur James er liði sínu, sem er jú það sem skipta á mestu máli í vali á mikilvægasta leikmanni deildarinnar.

Ef velja ætti besta leikmann deildarinnar væri valið auðvelt. Það er Giannis Antetokounmpo. En James er að mínu mati (það er að minnsta kosti hægt að rökstyðja það) mikilvægari sínu liði en Antetokounmpo. Hann gerir liðsfélagana í kringum sig betri, hann ótvíræður leiðtogi liðs sem væri ekki á leið í úrslitakeppnina án hans en er þess í stað líklegasta liðið til að fara í lokaúrslitin úr vesturdeildinni.

Þar til Lakers, á þremur dögum í byrjun mars, sigraði tvo líklegustu keppinauta sína um meistaratitilinn, Bucks og nágrannana í LA Clippers, voru fáir sem í fullri hreinskilni gáfu James möguleika á sigri í kjörinu um þann mikilvægasta. En þessir tveir leikir sýndu svo ekki verður um villst að Lakers á raunverulega möguleika á titilinum. Og James, sem fór fyrir liðinu í þessum leikjum eins og svo oft áður, spilaði eins og hann ætti nafnbótina skilið í fimmta og líklega síðasta sinn.

Sjálfum er LeBron James þó líklega nokk sama um þetta allt saman. Hann vill vinna sinn fjórða meistaratitil í ár, ekki vinna einstaklingsverðlaun. Nema kannski vera valinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna í fjórða sinn, sem kæmi í kjölfar meistaratitilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert