Byrjaður að fá símhringingar frá öðrum liðum

Martin Hermannsson
Martin Hermannsson Ljósmynd/Euroleague

Körfuknattleiksmaðurinn Mart­in Her­manns­son hefur fengið tilboð frá öðrum liðum og hefur áhuga á að reyna fyrir sér í NBA-deildinni en hann spilar nú fyrir þýska liðið Alba Berlín.

Martin hefur farið á kostum með Alba Berlín sem hefur verið í toppbaráttunni í Þýskalandi í vetur og þá hefur hann átt stórleiki í EuroLeague, sterkustu deild Evrópu, gegn mörgum af stærstu liðum álfunnar.

Öllum keppnum hefur hins vegar nú verið aflýst vegna kórónuveirunnar og alls óvíst hvort hægt verði að klára tímabilið en Martin, sem verður samningslaus í sumar, er óviss með framhaldið. Þetta sagði hann í viðtali við karfan.is er hann var gestur í hljóðvarpinu Boltinn lýgur ekki.

„Eins og tímarnir eru núna er allt í einhverju rugli og maður veit ekki hvernig þetta verður. Ég veit ekki hvort ég er að fara klára tímabilið með Alba Berlín,“ sagði Martin meðal annars í viðtalinu.

„Það væri auðvitað ótrúlega leiðinlegt að skilja við þá svona, við vorum með augun á stóra titlinum í Þýskalandi ... maður er byrjaður að fá símhringingar frá öðrum liðum og það er margt mjög spennandi. Ég veit ekki alveg hvað ég geri,“ bætti Martin við en hann hefur einnig fengið tilboð um að taka þátt í sumardeild NBA. Það er árleg keppni þar sem lið deildarinnar leyfa nýliðum og öðrum leikmönnum sem þykja eiga erindi í deildina að spreyta sig.

Viðtalið skemmtilega má hlusta á í heild sinni á heimasíðu karfan.is með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert