Valencia staðfestir komu Martins

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Ljósmynd/Alba Berlín

Spænska körfuknatt­leiksliðið Valencia hefur staðfest á heimasíðu sínni að Martin Hermannsson landsliðsmaður er að ganga til liðs við félagið. Fréttir af félagsskiptunum bárust í gær samkvæmt heimildum Eurohoops en félagið hefur nú staðfest skiptin.

Martin hefur skrifað undir tveggja ára samning við spænska liðið, með mögulega á einu ári til viðbótar. Valencia er eitt af stórliðunum í evr­ópsk­um körfu­bolta og hafnaði í tí­unda sæti í Euroleague í vet­ur en Alba Berlín, lið Mart­ins und­an­far­in tvö ár, hafnaði þar í sextánda sæti.

Liðið var í undanúr­slit­um um spænska meist­ara­titil­inn á dög­un­um en tapaði þar naum­lega , 75:73, fyr­ir Bas­konia sem síðan vann Barcelona í úr­slita­leikn­um. Valencia hef­ur verið sam­fleytt í einu af sex efstu sæt­un­um á Spáni frá 2009 og vann spænsku deild­ina árið 2017 en varð síðan í öðru sæti í úr­slita­keppn­inni.

Jón Arn­ór Stef­áns­son lék með Valencia 2006-07 og aft­ur 2015-16 þar sem hann lauk sín­um at­vinnu­manns­ferli. Tryggvi Snær Hlina­son hóf sinn at­vinnu­fer­il þar og lék með liðinu 2017 til 2019. Þá er Hilm­ar Smári Henn­ings­son á mála hjá Valencia og hef­ur spilað með varaliði fé­lags­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert