Mætir fyrrverandi liðsfélögum í úrslitum

Bam Adebayo, til hægri, og Marcus Smart, fyrir miðju, eigast …
Bam Adebayo, til hægri, og Marcus Smart, fyrir miðju, eigast við í Orlando í nótt. AFP

Miami Heat og Los Angeles Lakers mætast í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfuknattleik en þetta varð ljóst eftir 125:113-sigur Miami gegn Boston Celtics í sjötta leik liðanna í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í Disney World í Orlando í nótt.

Miami var með yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddi með tveimur stigum í hálfleik, 62:60. Boston tókst að hanga í Miami í þriðja leikhluta en Miami vann fjórða leikhluta með 10 stiga mun og þar við sat.

Bam Adebayo var stigahæstur í liði Miami með 32 stig og tólf fráköst. Þá skoraði Jimmy Butler 22 stig.

Jaylen Brown var stigahæstur með 26 stig hjá Boston og Jayson Tatum kom þar á eftir með 24 stig og ellefu stoðsendingar.

LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers, lék lengi vel með Miami Heat eða í fjögur ár. Hann varð tvívegis meistari með liðinu, 2012 og 2013.

Þetta er í sjötta sinn á síðustu fimmtán árum sem Miami Heat kemst í úrslitaeinvígi deildarinnar en ekkert lið hefur leikið oftar til úrslita á þeim tíma.

Úrslitaeinvígi Miami Heat og Los Angeles Lakers hefst á miðvikudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert