Nýliðarnir úr Grafarvogi á siglingu

Fjölniskonan Lina Pikciuté með boltann en en Blikinn Jessica Kay …
Fjölniskonan Lina Pikciuté með boltann en en Blikinn Jessica Kay Loera sækir að henni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjölniskonur fara afar vel af stað í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildinni, en í kvöld fylgdu þar eftir stórsigri í fyrstu umferðinni með því að leggja Breiðablik að velli í Smáranum, 74:71.

Fjölnir skoraði fjögur síðustu stig leiksins og Margrét Ósk Einarsdóttir tryggði sigurinn með tveimur stigum af vítalínunni. Þær Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir og Ariana Moorer voru stigahæstar hjá Fjölni með 16 stig en Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði 25 stig fyrir Breiðablik og Jessica Kay Loera 16.

Breiðablik vann Val í fyrstu umferðinni en missti stigin og var dæmdur 0:20 ósigur fyrir að nota leikmann sem var í leikbanni.

Haukar fóru vestur í Stykkishólm og unnu þar sigur á Snæfelli, 67:57, eftir að hafa verið tíu stigum yfir í hálfleik, 37:27.

Alyesha Lovett skoraði 20 stig fyrir Hauka og Bríet Sif Hinriksdóttir 13 en Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 18 stig fyrir Snæfell og Iva Georgieva 11.

Haukar eru þá með tvö stig en Snæfell hefur tapað báðum sínum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert