Nokkur gríðarlega óvænt úrslit

Ísrael vann afar óvæntan sigur á Spáni.
Ísrael vann afar óvæntan sigur á Spáni. Ljósmynd/FIBA

Undankeppni EM karla í körfubolta bauð upp á nokkur afar óvænt úrslit en lokamótið fer fram árið 2022. Ísland verður ekki með á lokamótinu að þessu sinni en liðið féll út í forkeppninni.

Ísrael og Spánn mættust í gær í A-riðli og vann Ísrael afar óvæntan 95:87-sigur en Spánn er í 2. sæti á heimslistanum og Ísrael í 41. sæti. Ísrael er í toppsæti riðilsins með sex stig og Spánn í þriðja sæti með fjögur.

Þá vann Sviss, sem er í 62. sæti heimslistans, 92:90-sigur á Serbíu sem er í 5. sæti. Eru bæði lið með fjögur stig eftir þrjá leiki í E-riðli en Georgía er í efsta sæti með sex stig.

Danir unnu afar óvæntan 80:76-sigur á Litháen. Danmörk eru í 59. sæti heimslistans og Litháen í 8. sæti. Danmörk, Litháen og Tékkland eru öll með fjögur stig í C-riðli og Belgía í toppsætinu með 6 stig.

Þrjú efstu lið hvers riðils fara áfram á lokamótið sem fram fer í Tékklandi, Georgíu, Þýskalandi og á Ítalíu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert