Kári mun spila fyrir Marc Gasol

Kári í landsleik gegn Lúxemborg á dögunum.
Kári í landsleik gegn Lúxemborg á dögunum. Ljósmynd/FIBA

Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við Girona sem staðsett er í Katalóníu og leikur í b-deildinni á Spáni. Félagið segir frá liðsstyrknum á heimasíðu sinni í dag. 

Kári stefndi að því í sumar og haust að komast að hjá erlendu liði sem nú hefur orðið raunin. Í samningi Kára við Hauka var ákvæði um að hægt væri að rifta samningnum ef tækifæri byðist fyrir hann erlendis. 

Kári hefur áður verið í Katalóníu því hann var keyptur til Barcelona árið 2018 og lék með varaliði félagsins þar til erfið meiðsli urðu þess valdandi að hann fór í tvær aðgerðir og var lengi frá. 

Marc Gasol sem gekk í raðir LA Lakers á dögunum er forseti félagsins. Hann tók þátt í að stofna félagið árið 2014 og fyrst var þar einungis yngri flokka starfssemi. Þá bar félagið nafn kappans. Síðar var félagið skýrt eftir bænum Girona og komið var á meistaraflokki árið 2017. 

Þjálfari liðsins er Quim Costa sem hefur unnið með mörgum frábærum leikmönnum en hann hefur bæði verið aðstoðarþjálfari Barcelona og spænska landsliðsins á sínum ferli. Sem leikmaður lék hann í mörg ár með Barcelona. 

Bræðurnir Pau og Marc Gasol á góðri stundu í leik …
Bræðurnir Pau og Marc Gasol á góðri stundu í leik með spænska landsliðinu. Þeir eru á meðal þekktustu íþróttamanna á Spáni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert