Fyrsti sigur KR kom á Hlíðarenda

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals og Jón Arnór Stefánsson glímdu …
Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals og Jón Arnór Stefánsson glímdu við sitt gamla félag á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR vann sinn fyrsta sigur í Dominos-deildinni í körfuknattleik þegar liðið bar sigurorð af nágrönnum sínum í Val, 80:71, í Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöld.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur og leiddu með átta stigum að loknum fyrsta leikhluta, 21:13.

Valsmenn byrjuðu hins vegar annan leikhluta af miklum krafti og eftir að hafa verið 30:24 undir komust þeir yfir, 30:31, um miðbik annars leikhluta. Eftir það var allt í járnum og staðan í hálfleik jöfn, 40:40.

Síðari hálfleikurinn þróaðist á svipaðan hátt, þar sem KR-ingar náðu aftur forystu og leiddu með fimm stigum, 60:55, að loknum þriðja leikhluta.

Valsmenn létu hins vegar ekki deigan síga og náðu forystu, 60:63, snemma í fjórða leikhluta. KR-ingar svöruðu því með því að skora næstu átta stig, 68:63. Áfram var jafnræði með liðunum og náðu Valsmenn að minnka muninn í 69:68. Eftir það gáfu KR-ingar í og skoruðu næstu fimm stig, 74:68. Nær komust Valsmenn ekki og unnu KR-ingar að lokum sterkan 80:71 sigur.

Stigahæstur KR-inga var Bandaríkjamaðurinn Ty Sabin með 33 stig, auk þess sem hann tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir samherja sína.

Stigahæstur Valsmanna var fyrrverandi KR-ingurinn Jón Arnór Stefánsson með 20 stig. Hann tók að auki sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Með sigrinum færist KR upp að hlið Valsmanna um miðja deild, en bæði lið eru með 2 stig að loknum þremur umferðum.

Gangur leiksins: 4:6, 9:10, 11:19, 13:21, 21:27, 31:30, 38:35, 40:40, 45:43, 47:53, 52:55, 55:60, 63:63, 63:68, 68:69, 71:80.

Valur: Jón Arnór Stefánsson 20/7 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Acox 17/13 fráköst, Miguel Cardoso 9/6 fráköst/7 stoðsendingar, Sinisa Bilic 8/7 fráköst, Benedikt Blöndal 6, Ástþór Atli Svalason 4, Pavel Ermolinskij 3/8 fráköst/6 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 2, Illugi Steingrímsson 2.

Fráköst: 34 í vörn, 14 í sókn.

KR: Tyler Sabin 33/5 fráköst/5 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 13/6 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 13/7 fráköst, Helgi Már Magnússon 7, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 4/4 fráköst, Björn Kristjánsson 4, Veigar Áki Hlynsson 4, Brynjar Þór Björnsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Ísak Ernir Kristinsson, Sigurður Jónsson.

Valur 71:80 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert