Sjötti sigur Utah í röð - Serbinn hélt uppteknum hætti

Nikola Jokic skoraði 27 stig fyrir Denver Nuggets í nótt.
Nikola Jokic skoraði 27 stig fyrir Denver Nuggets í nótt. AFP

Donovan Mitchell skoraði 28 stig fyrir Utah Jazz þegar liðið lagði New Orleans Pelicans í Utah í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Leiknum lauk með 118:102-sigri Utah en þetta var sjötti sigur liðsins í röð

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Utah leiddi með sex stigum í hálfleik 55:49.

Í þriðja leikhluta skoraði Utah 36 stig gegn 20 stigum New Orleans og New Orleans tókst aldrei að koma til baka eftir það. 

Utah er í þriðja sæti Vesturdeildarinnar með tíu sigra en New Orleans er í tólfta sætinu með fimm sigra.

Þá átti Serbinn Nikola Jokic enn einn stórleikinn fyrir Denver Nuggets þegar liðið vann öruggan 119:101-sigur gegn Oklahoma City Thunder í Denver.

Jokic var með tvöfalda tvennu, skoraði 27 stig og tók tólf fráköst. Þá gaf hann einnig sex stoðsendingar en Denver er í níunda sæti Vesturdeildarinnar með sjö sigra.

Oklahoma hefur hins vegar ekki gengið vel á tímabilinu en liðið er í ellefta sæti Vesturdeildarinnar með sex sigra.

Úrslit næturinnar í NBA:

Denver Nuggets 119:101 Oklahoma City Thunder
Utah Jazz 118:102 New Orleans Pelicans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert