Keflvíkingar óstöðvandi

Daniela Wallen í leik með Keflavík á síðasta tímabili.
Daniela Wallen í leik með Keflavík á síðasta tímabili. Eggert Jóhannesson

Keflavík vann sinn fjórða sigur í jafnmörgum leikjum þegar liðið bar sigurorð af Val, 87:83, í toppslag í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í Blue-höllinni í Keflavík í kvöld. Daniela Wallen fór á kostum í liði Keflavíkur og skoraði 37 stig.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru 16 stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta, 33:17. Í öðrum leikhluta náðu Valskonur að laga stöðuna aðeins en voru þó enn 10 stigum undir, 51:41.

Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik og færðust Valskonur sífellt nær og náðu þær að minnka muninn niður í fimm stig snemma í fjórða leikhluta, 72:67. Þegar tæp hálf mínúta var eftir af leiknum minnkuðu Valskonur muninn niður í þrjú stig, 86:83. Keflvíkingar sluppu hins vegar með skrekkinn og skoruðu úr einu vítaskoti í blálokin og sigldu þar með sigrinum í höfn, 87:83.

Eins og áður segir var Wallen  stigahæst Keflvíkinga en hún tók einnig sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Þá skoraði Anna Ingunn Svansdóttir 19 stig og tók fjögur fráköst.

Í liði Vals voru Helena Sverrisdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir öflugar. Helena náði þannig tvöfaldri tvennu með 26 stig og 11 fráköst, auk þess að gefa eina stoðsendingu. Hildur Björg skoraði 22 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Keflavík er eftir sigurinn í efsta sæti Dominos-deildarinnar með 10 stig eftir fimm leiki. Valur er í þriðja sætinu með átta stig en er búið að spila sex leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert