Ótrúleg dramatík þegar Fjölnir vann toppslaginn

Úr leik KR og Hauka í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik …
Úr leik KR og Hauka í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í dag. Mbl.is/ Íris Jóhannsdóttir

Fjölnir heldur toppsætinu í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik eftir að hafa unnið toppslaginn gegn Skallagrími, 76:74, í ótrúlega dramatískum leik í Borgarnesi í dag.

Liðsmenn Skallagríms byrjuðu leikinn betur og voru sjö stigum yfir, 21:14, að loknum fyrsta leikhluta.  Fjölnisstúlkur unnu sig aðeins betur inn í leikinn en enn var Skallagrímur yfir þegar flautað var til hálfleiks, 39;34.

Fjölnisstúlkur mættu áræðnar til síðari hálfleiks og voru búnar að minnka muninn í aðeins eitt stig að loknum þriðja leikhluta. Þær kláruðu svo leikinn á ögurstundu. Skallagrímur var yfir, 73:74, þegar ein sekúnda var eftir á klukkunni. Þá kom Sara Carin Vaz Djassi til bjargar og setti niður þriggja stiga flautukörfu og sigurinn Fjölnisstúlkna!

Ariel Hearn fór mikinn hjá Fjölni og náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hún 26 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók átta fráköst að auki.  Liðsfélagi hennar Lina Pikciuté náði sömuleiðis tvöfaldri tvennu, en hún skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Í liði Skallagríms náði Nikita Telesford einnig tvöfaldri tvennu, en hún skoraði 16 stig, tók 12 fráköst og gaf eina stoðsendingu. Liðsfélagi hennar Keira Breeanne Robinson 15 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar, auk þess sem Sanja Orozovic skoraði 15 stig, tók átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Með sigrinum styrkir Fjölnir stöðu sína á toppi Dominos-deildarinnar og er nú með 10 stig að loknum 7 leikjum. Skallagrímur er í fjórða sæti deildarinnar með 6 stig að loknum sex leikjum.

Sterkur sigur Snæfells

Snæfell jafnaði Breiðablik að stigum þegar liðið vann sterkan 68:61 sigur í deildinni gegn Blikum í dag.

Leikurinn var hnífjafn lengst af en frábær fjórði leikhluti skilaði Snæfelli sigrinum að lokum.

Haiden Denise Palmer hjá Snæfelli átti frábæran leik og náði tvöfaldri tvennu. Hún skoraði 23 stig, tók 11 fráköst og gaf auk þess sex stoðsendingar fyrir liðsfélaga sína. Emese Vida náði sömuleiðis tvöfaldri tvennu hjá Snæfelli, en hún skoraði 14 stig, tók 11 fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Jessica Kay Loera var stigahæst Blika með 24 stig og tók hún auk þess 5 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Snæfell er nú með fjögur stig að loknum sex leikjum, jafnmörg og Breiðablik, sem hefur þó leikið einum leik meira.

Þægilegt hjá Haukum

Haukar unnu svo þægilegan 79:65 sigur gegn botnliði KR.

Haukar höfðu yfirhöndina lengst af en KR náði þó góðu skriði í þriðja leikhluta og minnkaði muninn í fimm stig. Haukar náðu þó aftur undirtökunum og náðu 10 stiga forystu undir lok þriðja leikhluta og sigldu svo sigrinum heim í þeim fjórða.

Annika Holopainen átti stórleik fyrir KR, en hún skoraði 31 stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Í liði Snæfells skoraði Alyesha Lovett 20 stig, auk þess sem hún níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Haukar eru nú í þriðja sæti deildarinnar með átta stig að loknum sex leikjum.

KR situr hins vegar sem fastast á botni deildarinnar án stiga eftir sex leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert