Áttundi sigur ofurliðsins í röð

Kyrie Irving með boltann í leiknum í nótt en Frakkinn …
Kyrie Irving með boltann í leiknum í nótt en Frakkinn Evan Fournier reynir að ná boltanum. AFP

Ofurliðið Brooklyn Nets vann í nótt áttunda leikinn í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðið fékk Orlando Magic í heimsókn. 

Brooklyn sigraði 129:92 og er þetta lengsta sigurganga liðsins frá árinu 2006. Liðið er þó án Kevins Durant sem er meiddur og samkvæmt Steve Nash þjálfara liðsins mun Durant ekki verða með í þeim þremur leikjum sem liðið á eftir áður en að stjörnuhelgi NBA kemur. Kyrie Irving var stigahæstur hjá Brooklyn með 27 stig. 

Grikkinn Giannis Antetokounmpo hefur átt misjafna leiki á tímabilinu en var illviðráðanlegur í nótt þegar Milwaukee Bucks vann New Orleans Pelicans 129:125. Skoraði hann 38 stig og tók 10 fráköst. Segja má að hann hafi skyggt á Zion Williamson sem þó skoraði 34 stig fyrir New Orleans en Williamson sýnir æ oftar hvers vegna New Orleans valdi hann númer eitt í nýliðavalinu 2019. 

Úrslit: 

Philadelphia - Dallas 111:97
Brooklyn - Orlando 129:92
New York - Sacramento 140:121
Memphis - LA Clippers 122:94
Denver - Washington 110:112
Milwaukee - New Orleans 129:125

Giannis Antetokounmpo og Zion Williamson ræða málin í nótt.
Giannis Antetokounmpo og Zion Williamson ræða málin í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert