Spennusigur Fjölnis í fyrsta leiknum

Telma Lind Ásgeirsdóttir fyrirliði Breiðabliks með boltann í Dalhúsum í …
Telma Lind Ásgeirsdóttir fyrirliði Breiðabliks með boltann í Dalhúsum í kvöld en Fjölniskonan Ciani Cryor er til varnar. mbl.is/Unnur Karen

Fjölnir lagði Breiðablik að velli eftir tvísýnar lokamínútur, 75:71, í fyrsta leiknum í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld.

Jafnræði var með liðunum nær allan fyrri hálfleikinn en staðan var 19:17 fyrir Fjölni eftir fyrsta leikhlutann en Grafarvogskonur náðu um skeið  tíu stiga forskoti í öðrum leikhluta. Staðan var 39:31 í hálfleik.

Fjölnir komst síðan fjórtán stigum yfir snemma í seinni hálfleik en Blikar náðu að minnka þann mun niður í þrjú stig skömmu áður en þriðja leikhluta lauk. Staðan eftir hann var 58:52 eftir þriggja stiga körfu frá Ciani Cyor fyrir Fjölni.

Enn sveiflaðist forskotið í fjórða leikhluta og Fjölnir virtist stefna í öruggan sigur eftir að hafa komist snemma í 66:54. Blikakonur héldu sér áfram inni í leiknum og minnkuðu muninn í þrjú stig á ný, 72:69, þegar 48 sekúndur lifðu leiks. Í kjölfarið fengu þær tækifæri til að jafna en nýttu ekki sóknina.

Í staðinn skoraði Sanja Orozovic úr tveimur vítaskotum fyrir Fjölni þegar 13 sekúndur voru eftir, 74:69. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir svaraði strax fyrir Blika, 74:71.  Ciani Cyor fór á vítalínuna, skoraði úr fyrra skoti sínu, 75:71, og það reyndist innsigla sigur Fjölnis.

Ciani Cyor skoraði 21 stig fyrir Fjölni, Sanja Orozovic 19 og Dagný Lísa Davíðsdóttir var með 18 stig og 10 fráköst.

Iva Georgieva skoraði 22 stig fyrir Breiðablik, Anna Soffía Lárusdóttir 12 og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert