Ungverjaland of stór biti fyrir Ísland

Þóra Kristín Jónsdóttir með boltann í kvöld.
Þóra Kristín Jónsdóttir með boltann í kvöld. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta fékk Ungverjaland í heimsókn á Ásvelli í dag. Leikurinn var partur í undankeppni evrópumótsins sem fer fram árið 2023. Leiknum lauk með 115:58 sigri Ungverja sem leiddu allan leikinn.

Ungverska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti með hina 208 sentimetra háu Bernadett Határ í broddi fylkingar. Lovísa Henningsdóttir fékk það erfiða hlutverk að dekka Határ og leysti það eins vel og hægt var. Ungverjar fengu töluvert af opnum skotum í fyrsta leikhluta og náðu að byggja upp smá forskot. Sóknarleikur Íslands var þó góður og misstu stelpurnar gestina aldrei of langt frá sér. Góður kafli undir lok leikhlutans varð svo til þess að munurinn eftir fyrsta leikhluta var aðeins átta stig. 

Í öðrum leikhluta héldu Ungverjar svo áfram að setja niður opin skot. Reka Lelik reyndist íslenska liðinu sérlega erfið en hún setti niður fjögur þriggja stiga skot í fyrri hálfleik. Baráttan var þó til fyrirmyndar hjá okkar konum en þær gerðu allt hvað þær gátu til að stoppa töluvert hærra lið Ungverja. Ungverjar unnu þó annan leikhluta með 14 stiga mun og staðan í hálfleik var 37:59.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn svo af miklum krafti og skoruðu 12 stig í röð án þess að íslenska liðið kæmist á blað. Bernadett Határ og Cyesha Goree reyndust drjúgar og íslensku stelpurnar áttu í miklum vandræðum með að dekka þær í kringum körfuna. Ungverjar léku á als oddi það sem eftir var að leiknum á meðan og tóku meðal annars 21:5 kafla. Íslenska liðið missti taktinn og staðan fyrir lokaleikhlutann 50:84.

Fjórði leikhlutinn byrjaði nokkuð jafn en gestirnir juku þó hægt og rólega forystuna. Leikur Íslands var töluvert betri en í þriðja leikhluta en áfram héldu gæði gestanna að skína í gegn. Þær létu boltann ganga mjög hratt og fengu þar af leiðandi mörg opin skot. Skemmst er frá því að segja að Ungverjar sigldu mjög þægilegum sigri heim, 

Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst íslenska liðsins með 15 stig. Næstar voru Anna Ingunn Svansdóttir og Lovísa Henningsdóttir með 9, Hallveig Jónsdóttir með 8 og Ingunn Embla Kristínardóttir með 7.

Hjá Ungverjum var Cyesha Goree stigahæst með 27 stig og Reka Lelik næst með 21.



Ísland 58:115 Ungverjaland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert