„Mikill lærdómur fyrir félagið“

Haiden Palmer keyrir upp að körfu Tarbes í leiknum í …
Haiden Palmer keyrir upp að körfu Tarbes í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar töpuðu 79:41 gegn virkilega sterku frönsku liði, Tarbes, í Evrópubikar kvenna í körfubolta á Ásvöllum í kvöld. Bjarni Magnússon þjálfari liðsins var svekktur með frammistöðu liðsins þrátt fyrir gæði andstæðingsins.

„Að tapa á móti þessu góða liði er ekki stóra málið en ég var ekki ánægður með hvernig við komum inn í leikinn hvað hugarfar varðar. Því miður fannst mér við ekki mæta í leikinn eins og við ætluðum að gera, með áræðni og krafti. Við höfðum engu að tapa en vorum allt of hikandi í öllum okkar aðgerðum nánast allan leikinn.“

Staðan eftir fyrsta leikhluta var 8:24 gestunum í vil en Haukar bitu frá sér í öðrum leikhluta og unnu hann með þremur stigum.

„Við vorum aðeins hugaðri, ekki eins hikandi sóknarlega og meiri barátta í okkur varnarlega. Við vorum að gera hluti sem við ætluðum að bæta frá fyrsta leikhluta, halda þeim fyrir framan okkur og frákasta betur. Annar leikhluti var eini leikhlutinn sem við unnum frákastabaráttuna, það bara skiptir höfuðmáli. Við ætluðum svo að koma jafn grimmar inn í þriðja leikhluta en náum því ekki, þær ná áhlaupi á okkur og þá því miður datt botninn úr þessu hjá okkur.“

Helena Sverrisdóttir hefur verið að glíma við meiðsli en Bjarni segist ekki vita hversu langt sé í að hún snúi aftur inn á körfuboltavöllinn.

„Þú verður eiginlega bara að heyra í sjúkraþjálfurum og læknum varðandi það. Hún er bara í endurhæfingu og það styttist en hvort það verða ein, tvær, þrjár eða fjórar vikur veit ég bara ekki. Hún fær bara þann tíma sem hún þarf og svo kemur þetta bara í ljós.“

Þetta var síðasti heimaleikur Hauka í keppninni en þær eiga einn leik eftir gegn Brno í Tékklandi. Undirritaður bað Bjarna að gera aðeins upp keppnina og greina frá því hvað liðið og félagið getur tekið með sér úr keppninni.

„Það er kannski ekki besti tíminn núna til að fara yfir keppnina eftir svona frammistöðu. Það er auðvitað mikill lærdómur fyrir félagið, þjálfara og leikmenn að taka þátta í svona stóru verkefni og kljást við svona öflug lið. Við erum þakklát fyrir það, þetta er mikil reynsla.“

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert