Tindastóll knúði fram oddaleik eftir ótrúlega dramatík

Taiwo Badmus úr Tindastóli sækir á Kristófer Acox hjá Val …
Taiwo Badmus úr Tindastóli sækir á Kristófer Acox hjá Val í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Já það var boðið upp á einn mest spennandi körfuboltaleik Íslandssögunnar á Sauðárkróki í kvöld. Hér börðust menn á Sturlungaöldinni þar sem mörg vígin og stærri bardagar voru í Skagafirði. Nú 800 árum seinna er enn barist og nú er það baráttan um Íslandsmeistaratign í körfubolta karla, með framlengingu og öllu því sem hægt er að bjóða upp á í íþróttinni fögru. 

Hvar á maður að byrja eftir svona leik. Stólarnir virtust ætla að klára hann í venjulegum leiktíma en Valur náði að jafna með ævintýralegu þriggja stiga skoti. Í framlengingunni voru Valsmenn komnir með níu fingur á Íslandsbikarinn en Tindastóll jafnaði þegar skammt var eftir  með þrist. Stólarnir stálu svo boltanum eftir leikhlé og innkast Valsmanna. Pétur Rúnar komst upp allan völlinn og setti boltann ofan í körfuna. Fimm stig á síðustu tíu sekúndunum breyttu stöðunni úr 92:95 í 97:95 og Skagirðingar ærðust í stúkunni en vonsviknir Valsmenn snéru tómhentir heim. 

Fyrsti leikhlutinn var afar skemmtilegur. Töluvert var um tapaða bolta en mikið skorað. Eftir brösuga byrjun fóru Stólarnir í gang og þeir voru einhverjum stigum yfir allt fram að leikhlutaskiptunum þegar Valur minnkaði muninn í eitt stig, staðan 29:28. Taiwo Badmus og Sigtryggur Arnar voru funheitir og skoruðu báðir tíu stig í leikhlutanum. 

Valsmenn tóku öll völd í byrjun annars leikhluta og skoruðu níu fyrstu stigin. Þeir komust mjög auðveldlega upp að körfu Tindastóls og fengu fullt af auðveldum körfum. Á meðan var sóknarleikur Tindastóls stirður og tilviljanakenndur, þar sem þeir tóku erfið skot hvað eftir annað. Skyndilega var staðan 48:37 fyrir Val og allt í blóma á þeim bænum. Tók nú við fjögurra mínútna kafli þar sem Valur tapaði nokkrum boltum og heimamenn gengu á lagið. Tindastóll náði 12:0 spretti og komst yfir fyrir hálfleik. Staðan var 49:48 fyrir Stólana í hálfleik. Kristófer Acox var gríðarlega öflugur hjá Val, sem og Jacob Calloway. Þeir kveinkuðu sér báðir á leið inn í búningsklefa og hafði Kristófer þurft aðhlynningu á varamannabekk Vals skömmu áður. 

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn með góðum kafla og komust yfir á ný. Þeir héldu frumkvæðinu lengstum og leiddu 67:61 fyrir lokaleikhlutann. 

Kári Jónsson leiddi sína menn í Val í gegnum lokaleikhlutann með ísköldum skotum , sem rötuðu flest ofan í. Hjálmar Jónsson fór svo af velli með fimm villur um miðjan leikhlutann og var það afar slæmt fyrir Valsmenn. Þegar 3:28 voru eftir á klukkunni þá skoraði Taiwo Badmus þrist og kom Stólunum yfir, 78:77. Ekkert var skorað næstu mínútur og voru allar sóknir langar og varfærnislegar. Engin stig bættust þó við þar til á lokamínútunni. Stólarnir fóru á vítalínuna í tvígang og komust í 81:77. Calloway svaraði með þristi og Bess setti síðan tvö víti ofan í. Staðan var því 83:80 þegar Valur fór í sína síðustu sókn. Þar braut Bess asnalega á Callum Lawson sem fékk tvö skot og boltann. Lawson klúðraði báðum vítunum en Valur fékk tvær tilraunir á þrist og skoraði Calloway og jafnaði leikinn þegar 3,5 sekúndur lifðu. Pétur Rúnar átti lokaskot Tindastóls en það klikkaði. Því þurfti að framlengja og ef endirinn í venjulegum leiktíma var ævintýralegur þá sló eiginlega framlengingin því ævintýri út. 

Valur var með undirtökin í framlengingunni og eftir mikla spennu á vítalínunni þar sem Kári Jónsson var ískaldur þá leiddi Valur 95:92 þegar 10 sekúndur voru eftir. Á þeim tíma tókst Stólunum að setja þrist og stela boltanum í bálokin. Pétur Rúnar komst upp völlinn með boltann og skoraði sigurkörfuna þegar sekúnda var eftir. Það verður því oddaleikur á Hlíðarenda á miðvikudag. Aðra eins lokakafla hafa menn vart orðið vitni af í háa herrans tíð en því miður þá lýkur veislunni loks á miðvikudag. 

Þá fer fram hreinn úrslitaleikur og Íslandsmeistarabikarinn mun fara á loft, hvernig sem fer. 

Gangur leiksins:: 2:5, 12:10, 21:18, 29:26, 29:37, 37:46, 39:48, 49:48, 49:54, 58:58, 58:63, 61:67, 63:69, 73:76, 78:77, 83:83, 88:89, 97:95.

Tindastóll: Taiwo Hassan Badmus 31/8 fráköst, Javon Anthony Bess 26/8 fráköst/3 varin skot, Sigtryggur Arnar Björnsson 19/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/11 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 4/5 fráköst/6 stoðsendingar, Zoran Vrkic 3, Viðar Ágústsson 2, Axel Kárason 2.

Fráköst: 31 í vörn, 7 í sókn.

Valur: Jacob Dalton Calloway 27/7 fráköst, Kári Jónsson 22/7 fráköst/5 stoðsendingar, Pablo Cesar Bertone 13/10 fráköst/6 stoðsendingar, Kristófer Acox 13/4 fráköst, Callum Reese Lawson 9/6 fráköst, Hjálmar Stefánsson 9/8 fráköst, Pavel Ermolinskij 2.

Fráköst: 35 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson, Ísak Ernir Kristinsson.

Áhorfendur: 1400

Tindastóll 97:95 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert