Martin með slitið krossband

Martin Hermannsson í leik með Valencia.
Martin Hermannsson í leik með Valencia. Ljósmynd/Valencia Basket

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, sleit krossband í hné í leik Valencia og Baskonia í úrslitakeppninni á Spáni í gærkvöld.

Eins og áður kom fram var Martin borinn af velli undir lok fyrri hálfleiks og Valencia staðfesti á heimasíðu sinni í dag að eftir skoðun í morgun hefði komið í ljós að krossband í vinstra hné væri slitið.

Hann verður þar með væntanlega frá keppni langt fram eftir næsta keppnistímabili. Hann gæti hæglega misst af því öllu, þar sem endurhæfing eftir krossbandsslit getur tekið hátt í ár. Ljóst er að Martin leikur ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum mikilvægu í undankeppni heimsmeistaramótsins í júlí og ágúst.

Sjálfur sagði Martin á Twitter rétt áðan: „Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn og skeyti sem ég hef fengið. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Þetta er næsta áskorun, ég get ekki beðið eftir því að byrja að takast á við hana. Sjáumst fljótlega."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert