Spánn tapaði í Tbilisi - slæm úrslit fyrir Ísland

Rati Andronikashvili skorar fyrir Georgíumenn gegn Spánverjum í dag.
Rati Andronikashvili skorar fyrir Georgíumenn gegn Spánverjum í dag. Ljósmynd/FIBA

Georgíumenn gerðu sér lítið fyrir og unnu óvæntan sigur á heimsmeisturum Spánverja, 82:76, í undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta í Tbilisi í dag og þau úrslit gætu reynst óhagstæð fyrir íslenska landsliðið.

Þessi lið færast yfir í riðil með Íslandi á lokastigi undankeppninnar og taka með sér innbyrðis úrslitin. Georgíumenn fara því með þessi óvæntu stig með sér en horfur eru á að þeir muni berjast við íslenska liðið um sæti á HM 2023.

Georgíumenn unnu einnig heimaleik sinn við Úkraínu og fara því með tvo sigurleiki og tvo tapleiki með sér yfir í seinni undanriðilinn.

Leikurinn í dag var framlengdur eftir að Spánverjar jöfnuðu undir lokin með 3ja stiga körfu, 67:67. Þeir komust síðan yfir, 73:72, en þá tóku Georgíumenn völdin og skoruðu tíu stig gegn þremur á lokakaflanum.

Giorgi Shermadini skoraði 18 stig fyrir Georgíumenn, Rati Andronikashvili 17 og Thaddus McFadden 16. 

Spánverjar eru með gjörbreytt lið frá því þeir urðu heimsmeistarar fyrir þremur árum og allt „gullaldarlið“ þeirra er horfið á braut. Xabi Lopez-Arostegui, samherji Martins Hermannssonar hjá Valencia, var stigahæstur með 14 stig og Darío Brizuela, leikmaður Unicaja Málaga, skoraði 12.

Eftir leikinn er Ísland áfram efst í riðlinum í undankeppni tvö með 6 stig, Spánn, Ítalía og Georgía eru með 4 stig, Úkraína 2 og Holland er án stiga en leikur Hollands og Ítalíu er að hefjast. Þrjú efstu liðin komast á HM 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert