Þórsarar skrefi á eftir og féllu úr keppni

Fotios Lampropoulos lék vel með Þór í fyrri hálfleiknum í …
Fotios Lampropoulos lék vel með Þór í fyrri hálfleiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór frá Þorlákshöfn hefur lokið keppni í Evrópubikar FIBA í körfuknattleik eftir ósigur gegn AEK Larnaca frá Kýpur, 77:68, í Mitrovica í Kósóvó í dag.

AEK heldur áfram keppni og mætir Antwerp Giants frá Belgíu í undanúrslitum undanriðilsins í Kósóvó á morgun en Þórsarar geta haldið heim á leið.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með enda var staðan jöfn, 9:9, eftir um fjögurra mínútna leik. Þar af skoraði Kanadamaðurinn Alonzo 6 stig fyrir Þór.

Þegar líða tók á fyrsta leikhluta náði AEK betri tökum á leiknum á meðan Þórsarar hættu nánast að skora um nokkurra mínútna skeið.

AEK náði mest sjö stiga forystu í leikhlutanum og var með fimm stiga forystu, 18:13, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta.

Grikkinn öflugur í fyrsta leikhluta

Með Grikkjann Fotios Lampropoulos, sem skoraði 8 stig í fyrsta leikhluta, fremstan í flokki, náðu Þórsarar í kjölfarið að laga stöðuna og minnka muninn niður í 19:17 en AEK skoraði síðustu tvö stig leikhlutans og leiddi þannig með fjórum stigum, 21:17, að honum loknum.

Annar leikhluti byrjaði með látum þar sem Emil Karel Einarsson setti niður þriggja stiga körfu en Kýpverjarnir svöruðu í sömu mynt strax í næstu sókn.

Þórsarar voru þó ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn niður í eitt stig, 26:25, eftir að Josep Pérez skoraði laglega þriggja stiga körfu og Alonzo Walker setti niður sniðskot.

Þórsarar komust yfir

Walker hélt áfram að velgja Kýpverjunum undir uggum og sá til þess að Þór náði forystunni, 29:26, fyrst með sniðskoti og svo laglegri troðslu.

AEK tók þá afskaplega vel við sér að nýju og skoraði sjö stig í röð á um einni mínútu, sem þýddi að staðan var skyndilega orðin 33:29, Kýpverjunum í vil.

Áfram var allt í járnum þar sem hinn ungi og bráðefnilegi Tómas Valur Þrastarson skoraði til að mynda fimm stig í röð.

Eftir að Þór hafði náð að minnka muninn niður í eitt stig, 37:36, tók við einkar góður kafli hjá AEK í blálok annars leikhluta þar sem Kýpverjarnir skoruðu átta stig í röð og fóru þannig með níu stiga forskot til leikhlés, 45:36.

Walker skoraði 12 stig fyrir Þór í fyrri hálfleiknum og Lampropoulos 10.

Barningur í þriðja leikhluta

Kýpverjarnir hófu seinni hálfleik á að komast ellefu stigum yfir en Þór minnkaði muninn í 47:41 og síðan í 49:45. Þórsarar spiluðu grimman varnarleik en nýttu færin ekki nægilega vel í sókninni. Staðan var 53:47 þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en AEK jók forskotið í 58:47 eftir að Þórsarar fóru illa að ráði sínu í nokkrum sóknum í röð.

Þriggja stiga karfa frá sænska bakverðinum Adam Rönnqvist sá til þess að staðan var 58:50 eftir þriðja leikhlutann.

Daníel Halldórsson, Grafarvogspilturinn ungi, minnkaði muninn í 61:55 með fallegri þriggja stiga körfu þegar skammt var liðið af fjórða leikhluta og í kjölfarið kom lagleg karfa frá Lampropoulos, 61:57 og Rönnqvist skömmu síðar með þriggja stiga körfu, 64:60. 

Kýpverjarnir náðu alltaf að svara inn á milli og halda nokkurra stiga forystu og þeir voru yfir, 68:60, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Þeir juku muninn í 72:62 þegar fjórar mínútur voru eftir og Þórsarar náðu aldrei áhlaupinu sem þeir hefðu þurft á þessum kafla leiksins til að jafna metin.

Nýttu ekki tækifæri á lokamínútunum

Þegar tvær mínútur voru eftir minnkaði Walker muninn í 72:65 úr vítaskoti og Þór hélt boltanum, en missti hann jafnharðan. Þarna náðu Þórsarar aðeins einu stigi af fjórum til fimm mögulegum í mikilvægri sókn. Þriggja stiga skot Walkers í næstu sókn geigaði og enn þyngdist því róðurinn.

AEK komst í 74:65 þegar mínúta var eftir af leiknum en Josep Pérez setti þá niður þrist fyrir Þórsara, 74:68.

Þórsarar náðu boltanum en þriggja stiga skot Walkers geigaði þegar 30 sekúndur voru eftir. Í staðinn skoraði AEK úr vítaskoti, 75:68, og 20 sekúndur eftir þegar Þór tók leikhlé. 

Þriggja stiga skot frá Rönnqvist geigaði, Þórsarar brutu og AEK fór á vítalínuna með 11 sekúndur eftir. Bæði skotin fóru niður, 77:68, og aftur leikhlé. Ein þriggja stiga tilraun frá Walker og síðan rann leiktíminn út. Níu stiga sigur Kýpverjanna var staðreynd og Þórsarar höfðu þar með lokið keppni.

Stig Þórs: Fotios Lampropoulos 18, Alonzo Walker 16, Josep Pérez 10, Tómas Þrastarson 9, Adam Rönnqvist 6, Emil Karel Einarsson 3, Daníel Halldórsson 3, Pablo Hernandez 3.

Walker tók 8 fráköst, Lampropoulos og Hernández 7 hvor. Rönnkvist átti 6 stoðsendingar. Lampropoulos var með 23 framlagsstig, Tómas 15 og Walker 13.

Hægt var að horfa á leikinn í beinni útsendingu hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert