Toppliðið stöðvað á Hornafirði

Israel Martin þjálfar Sindramenn sem eru í öðru sæti 1. …
Israel Martin þjálfar Sindramenn sem eru í öðru sæti 1. deildar og unnu Álftanes í toppslagnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurganga Álftnesinga í 1. deild karla í körfuknattleik  var stöðvuð í gærkvöld þegar þeir biðu lægri hlut fyrir Sindra, 97:88, í uppgjöri tveggja efstu liðanna sem fram fór á Höfn í Hornafirði.

Álftanes hafði unnið átta fyrstu leiki sína en Hornfirðingar sýndu að þeir ætla að vera með í baráttunni um sæti í úrvalsdeildinni en þar hefur hvorugt þessara liða leikið. Álftanes er með 16 stig, Sindri 14 og Hamar 12 stig í þremur efstu sætunum.

Rimantas Daunys var stigahæstur Hornfirðinga með 23 stig, Árni Birgir Þorvarðarson skoraði 18 og Ismael Herrero 16.

Srdan Stojanovic skoraði 28 stig fyrir Álftnesinga, Eysteinn Bjarni Ævarsson 15 og Dino Stipcic 12.

Hamar vann Fjölni 90:81 í Hveragerði. Jose Medina skoraði 24 stig fyrir Hamar, Mirza Sarajlija 18 og Ragnar Nathanaelsson skoraði 14 stig og tók 13 fráköst.

Selfoss er í fjórða sæti með 10 stig og vann Ármann, 87:71, og Hrunamenn eru komnir í baráttuna í efri hlutanum eftir sigur á Þór frá Akureyri, 101:94, á Flúðum en þeir eru líka með 10 stig.

ÍA vann Skallagrím 85:80 í Vesturlandsslag en í neðri hluta deildarinnar eru Ármann með 8 stig, ÍA með 8, Skallagrímur 6, Fjölnir 4 og Þór á Akureyri er stigalaus á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert