Fékk risasekt fyrir að úthúða dómara

Fred VanVleet í leik með Toronto Raptors.
Fred VanVleet í leik með Toronto Raptors. AFP/Carmen Mandato

Fred VanVleet, leikmaður Toronto Raptors í NBA-deildinni í körfuknattleik, þarf að greiða 30.000 bandaríkjadali í sekt eftir að hafa látið dómara heyra það á blaðamannafundi eftir 100:108-tap liðsins fyrir LA Clippers í fyrrinótt.

VanVleet var verulega ósáttur við að hafa fengið dæmda tæknivillu á sig í leiknum, sem hann telur hafa breytt leiknum, og vandaði Ben Taylor dómara ekki kveðjurnar.

„Þetta er í lagi, ég skal taka sekt á mig. Mér er í rauninni alveg sama.  Mér fannst Ben Taylor algjörlega ömurlegur í nótt.

Ég held að maður viti það alltaf að flest kvöld mun einn eða tveir af dómurunum þremur gjöreyðileggja leikinn.

Það hefur verið þannig í nokkrum leikjum í röð núna. Að tapa fyrir Denver [aðfaranótt þriðjudags] var auðvitað erfitt.

Maður mætir til leiks og leggur sig allan fram og svo fæ ég einhverja kjaftæðis tæknivillu sem breytir allri dýnamík í leiknum, breytir flæði leiksins,“ sagði VanVleet á blaðamannafundinum.

NBA-deildin sat ekki auðum höndum og úrskurðaði að hann þyrfti að greiða 30.000 dollara sekt, sem er tæplega 4,3 milljónir króna, fyrir ummæli sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert