Formaðurinn segir af sér eftir 17 ára setu

Hannes Sigurbjörn Jónsson hefur gegnt formennsku hjá KKÍ undanfarin 17 …
Hannes Sigurbjörn Jónsson hefur gegnt formennsku hjá KKÍ undanfarin 17 ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes S. Jónsson hefur sagt af sér sem formaður Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, en hann hefur gegnt embættinu undanfarin 17 ár.

Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem KKÍ sendi frá sér í morgun en Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, sem hefur verið varaformaður sambandsins undanfarin ár, tekur við formennsku af Hannesi og er hún 15. formaður KKÍ og jafnframt önnur konan til að gegna embættinu.

Á ársþingi sambandsins, sem fram fór um helgina, var samþykkt lagabreyting þess efnis að KKÍ skildi ráða framkvæmdastjóra sem megi ekki sitja í stjórn KKÍ en til stendur að Hannes taki við sem framkvæmdastjóri sambandsins.

„Ný stjórn samþykkti samhliða þessu að fela nýjum formanni að staðfesta áframhaldandi ráðningarsamning við Hannes S. Jónsson sem framkvæmdastjóra sambandsins,“ segir meðal annars í tilkynningu KKÍ.

Yfirlýsing KKÍ:

Á 55. körfuknattleiksþingi KKÍ þann 25. mars síðastliðinn var samþykkt breyting á lögum um skipulag stjórnar KKÍ og aðskilnað starfa formanns og framkvæmdastjóra sambandsins. Í breyttum lögum er tilgreint að stjórn KKÍ skuli ráða framkvæmdastjóra en jafnframt að framkvæmdastjóri megi ekki sitja í stjórn sambandsins.

Mánudaginn 27. mars var fyrsti fundur nýrrar stjórnar sambandsins haldinn þar sem Hannes S. Jónsson, formaður og framkvæmdastjóri sambandsins tilkynnti afsögn sína sem formaður sambandsins. Varaformaður stjórnar, Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, tekur við sem formaður sambandsins og mun hún gegna því hlutverki fram að næsta ársþingi KKÍ vorið 2025. Guðbjörg verður þar með 15. formaður KKÍ í sögu sambandsins og önnur konan til að gegna því embætti. Nýr varaformaður stjórnar var kosinn Birna Lárusdóttir.

Ný stjórn samþykkti samhliða þessu að fela nýjum formanni að staðfesta áframhaldandi ráðningarsamning við Hannes S. Jónsson sem framkvæmdastjóra sambandsins.

Stjórn KKÍ vill koma á framfæri þökkum til fráfarandi formanns Hannesar S. Jónssonar fyrir ómetanlegt starf sem formaður sambandsins síðastliðin 17 ár, þar sem sambandið hefur tekist á við gríðarlegan vöxt iðkenda og vinsælda körfuknattleiks á Íslandi, í miklum ólgusjó breytinga og utanaðkomandi áhrifa.

Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands:

Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir formaður
Birna Lárusdóttir 1. varaformaður
Lárus Blöndal 2. varaformaður
Guðrún Kristmundsdóttir gjaldkeri
Ágúst Angantýsson meðstjórnandi
Einar Hannesson meðstjórnandi
Heiðrún Kristmundsdóttir meðstjórnandi
Herbert Arnarson meðstjórnandi
Jón Bender meðstjórnandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert