Mynd að komast á hóp nýliðanna

Emma Karólína Snæbjarnardóttir í leik með Þór gegn KR í …
Emma Karólína Snæbjarnardóttir í leik með Þór gegn KR í vetur. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Fjórir ungir og efnilegir leikmenn kvennaliðs Þórs frá Akureyri í körfuknattleik hafa skrifað undir nýja samninga við körfuknattleiksdeild Þórs og leika því með liðinu í úrvalsdeild, þar sem það er nýliði, á næsta tímabili.

Um er að hina 15 ára gömlu Emmu Karólínu Snæbjarnardóttur, hina 19 ára gömlu Katrínu Evu Óladóttur, hina 15 ára gömlu Vöku Bergrúnu Jónsdóttur og hina 17 ára gömlu Valborgu Elvu Bragadóttur.

Emma Karólína er bakvörður sem er 177 sentimetrar að hæð. Emma Karólína æfði á dögunum með U16-ára landsliði Þýskalands og stóð sig frábærlega þar, en hún hefur einnig verið í U16-ára landsliði Íslands.

Emma Karólína á íslenskan föður og þýska móður og getur því spilað með hvoru landsliðin sem er. Hún spilaði að meðaltali tæplega 15 mínútur í leik með Þórsliðinu á nýafstöðnu tímabili í 1. deild, skoraði 5,7 stig að meðaltali í leik og tók 3,7 fráköst. Hún var með 7,1 framlagsstig í leik að meðaltali.

Katrín Eva er framherji sem er 175 sentimetrar að hæð. Hún kom til Þórs frá Tindastóli og spilaði með liðinu í 1. deildinni síðastliðinn vetur. Katrín Eva spilaði að meðaltali tæpar níu mínútur í leik á tímabilinu í þeim sex leikjum sem hún lék með Þórsliðinu í vetur.

Vaka Bergrún er bakvörður sem er 172 sentimetrar að hæð. Hún var í leikmannahópi Þórs í 1. deildinni á síðastliðnu tímabili og spilaði að meðaltali tæpar sex mínútur í þeim 12 leikjum þar sem hún kom við sögu í vetur.

Valborg Elva er framherji sem er 174 sentimetrar að hæð. Hún kom til liðs við Þór frá Skallagrími í Borgarnesi þegar kvennalið félagsins var lagt niður. Valborg Elva kom við sögu í 11 leikjum með Þórsliðinu á síðastliðnu tímabili og spilaði að meðaltali um sex og hálfa mínútu í leik.

Þór hefur undanfarið samið við lykilmenn sína og bætt við belgíska framherjanum Lore Devos. Þá skrifaði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari liðsins, nýverið undir nýjan samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert