Pavel í veikindaleyfi hjá Tindastóli

Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pavel Ermolinskij er kominn í veikindaleyfi sem þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfuknattleik.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.

Pavel, sem er 37 ára gamall, tók við þjálfun Tindastóls í janúar á síðasta ári og gerði liðið að Íslandsmeisturum í fyrsta sinn í sögu félagsins síðasta vor.

Sauðkrækingar höfðu þá betur gegn Val í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í oddaleik á Hlíðarenda og unnu einvígið samanlagt 3:2.

Svavar Atli stýrir liðinu

Tindastóll situr sem stendur í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 19 umferðir og er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Samkvæmt heimildum mbl.is og Morgunblaðsins mun Svavar Atli Birgisson, aðstoðarþjálfari liðsins, stýra Tindastóli í næstu leikjum.

Ekki náðist í forráðamenn körfuknattsleiksdeildar Tindastóls í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en félagið hefur nú sent frá sér yfirlýsingu sem má sjá með því að smella hér.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert