Ísland vann stórkostlegan sjö stiga sigur á Ítalíu, 81:74, í fjórðu umferð undanriðils-B fyrir Evrópumót karla í körfuknattleik í Reggio Emilia á Ítalíu í kvöld.
Ítalía vann Ísland með 24 stigum í Laugardalshöll á föstudaginn var, 95:71, og er í toppsæti riðilsins með sex stig. Tyrkland er í öðru sæti með sex stig eftir sigur á Ungverjalandi áðan. Ísland er síðan í þriðja sæti með fjögur stig og Ungverjar neðstir án stiga. Þrjú efstu liðin fara beint á EM næsta sumar.
Ísland mætir Ungverjalandi ytra og Tyrklandi heima í síðustu tveimur leikjum liðsins í riðlinum í febrúar. Ísland þarf aðeins einn sigur, eða jafnvel engan takist Ungverjum ekki að vinna báða leiki sína.
Sigurinn er stórkostlegur þar sem Ísland er í 48. sæti heimslistans en Ítalía í því 14.
Kristinn Pálsson var stórkostlegur í kvöld og setti 22 stig og tók fjögur fráköst. Elvar Már Friðriksson skoraði þá 15 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Jón Axel Guðmundsson skoraði einnig 15 stig en hann tók ásamt því fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar.
Fyrsti leikhluti var frábær hjá íslenska liðinu. Landsliðsmennirnir voru afar grimmir og átti sterkt lið Ítalíu fá svör.
Ísland náði mest 13 stiga forskoti tvívegis og var yfir með þeim mun að leikhlutanum loknum, 22:9.
Ítalir voru sterkari í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn minnst í eitt stig, 29:28.
Íslenska liðið endaði hins vegar leikhlutann betur og var þremur stigum yfir í hálfleik, 32:29.
Þriðji leikhluti var jafn en Ítalir komust yfir í honum. Aftur endaði íslenska liðið þó leikhlutann betur og var tveimur stigum yfir fyrir fjórða og síðasta leikhluta, 58:56.
Íslenska liðið átti magnaðan fjórða leikhluta þar sem að hver landsliðsmaðurinn á fætur öðrum kom með mikilvæg stig. Munurinn var orðinn fjórtán stig, Íslandi í hag, þegar stutt var eftir. Áhlaup Ítala í lokin dugði ekki til og að lokum vann Ísland glæstan og sannfærandi sigur, 81:74.