KR gerði góða ferð austur á Egilsstaði og sigraði Hött, 88:85, í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.
Með sigrinum fór KR upp í átta stig og jafnaði Njarðvík, Grindavík, Keflavík, Álftanes og Þór frá Þorlákshöfn að stigum, en liðin eru fjórum stigum á eftir Tindastóli og Stjörnunni í efstu tveimur sætunum.
Höttur er með sex stig eins og Valur í 9.-10. sæti, fjórum stigum á undan ÍR sem er í næstneðsta sæti.
KR-ingar voru yfir allan fyrri hálfleikinn og var staðan eftir hann 42:35. Höttur vann þriðja og fjórða leikhluta með sömu stigum, 25:23, en það nægði ekki til sigurs.
Linards Jaunzems skoraði 25 stig fyrir KR og tók tíu fráköst. Nimrod Hilliard bætti við 20 stigum.
Justin Roberts gerði 25 stig fyrir Hött og Nemanja Knezevic bætti við 15 stigum og 19 fráköstum.