Ásdís Hjálmsdóttir hefur keppt á hverju einasta stórmóti síðasta áratuginn, ef frá er talið heimsmeistaramótið 2007 þegar hún var meidd í olnboga. Hún er mætt til Ríó á sína þriðju Ólympíuleika og keppir í forkeppni spjótkasts laust fyrir kl. 1 í nótt.
Ásdís segist aldrei hafa verið í betra formi en veit að brugðið getur til beggja vona í spjótkasti, þar sem aðeins þrjár tilraunir skera úr um hverjar komast í 12 manna úrslit og hverjar ekki.
„Ég er í hörkuformi og hlakka til að kasta,“ segir Ásdís við blaðamann í Ríó, ánægð með það hvernig árið hefur gengið hingað til. „Það hefur gengið rosalega vel að æfa, ég hef verið alveg heil og laus við allt vesen. Ég hef æft aðeins öðruvísi en áður og lærði helling af árinu í fyrra, eftir meiðsli þá [handarbrot í febrúar], og veit að meira er ekkert endilega alltaf betra. Við breyttum aðeins skipulaginu og ég hef unnið meira en áður í ýmsum hlutum. Tímabilið hefur síðan verið mjög gott og ég hef kastað mjög langt á sterkari mótunum sem ég hef keppt á,“ segir Ásdís.
Sjá viðtal við Ásdísi í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.