Auðvelt hjá Bandaríkjunum – Nígería úr leik

Jayson Tatum í baráttu við Ondrej Balvin í leik Bandaríkjanna …
Jayson Tatum í baráttu við Ondrej Balvin í leik Bandaríkjanna og Tékklands í dag. AFP

Bandaríkin unnu afar auðveldan 119:84 stórsigur gegn Tékklandi í A-riðlinum í körfuknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Þá tapaði Nígería fyrir Ítalíu og hefur þar með lokið keppni.

Stigahæstir í liði Bandaríkjamanna voru Jayson Tatum, leikmaður Boston Celtics, með 27 stig, og Kevin Durant, leikmaður Brooklyn Nets, með 23 stig. Durant tók einnig átta fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Stigahæstur í liði Tékka var hinn hálf-bandaríski Blake Schilb með 17 stig.

Í hinum leiknum í A-riðlinum unnu Frakkar þægilegan 79:62 sigur og tryggðu sér þar með sigur í riðlinum, Bandaríkin enda í öðru sæti riðilsins en bæði lið eru komin áfram í fjórðungsúrslitin.

Hamem Haddadi hjá Íran var stigahæstur í leiknum með 18 stig og Thomas Heurtel var skammt undan með 16 stig fyrir Frakka.

Tékkland gæti einnig komist í fjórðungsúrslitin úr A-riðlinum en þarf að bíða og sjá hvernig leikur Argentínu og Japans í C-riðlinum í nótt fer, þar sem tvö af þremur liðum í þriðja sæti riðlanna þriggja komast áfram.

Í B-riðlinum vann Ítalía góðan 80:71 sigur gegn Nígeríu og tryggði sér um leið annað sæti riðilsins og sá til þess að Nígería endar í fjórða og neðsta sæti hans og hefur því lokið keppni á leikunum.

Chimezie Metu, leikmaður Sacramento Kings, var stigahæstur í leiknum með 22 stig fyrir Nígeríu og Jordan Nwora, leikmaður NBA-meistara Milwaukee Bucks, skoraði 20 stig.

Stigahæstur í liði Ítala var Nicolo Melli með 15 stig.

Í hinum leik B-riðilsins vann Ástralía sterkan 89:76 sigur á Þýskalandi og tryggði sér um leið sigur í riðlinum. Þýskaland verður annað þeirra liða sem kemst í fjórðungsúrslitin með bestan árangur í þriðja sæti.

Patty Mills, leikmaður San Antonio Spurs, var stigahæstur í leiknum með 24 stig og Jock Landale samherji hans var með 18 stig.

Stigahæstur Þjóðverja var Andreas Obst með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert